Gídeonforsetinn og mannréttindi barna

06/10/2011

Svo óvenjulega vildi til að ég horfði á fréttirnar á Stöð 2 í gærkvöldi. Þar var fjallað um nýsamþykktar reglur Reykjavíkurborgar um samskipti lífsskoðunar- og trúfélaga við menntastofnanir þar sem loksins er kveðið skýrt á um að trúboð verður ekki stundað í leik- og grunnskólum borgarinnar (eða í dægradvölum þeirra síðarnefndu). Eins og gefur að skilja var eini viðmælandi fréttastofunnar nýr forseti Gídeonfélagsins. Ég held allavega að hann sé nýr. Þetta var í það minnsta ekki Fjalar Freyr sem ennþá er skráður forseti á síðu ríkiskirkjunnar. Fjalar Freyr hefur þó reyndar lengi skammast sín fyrir að gegna þessu embætti eins og ég hef bent á áður. Þá er lítið að græða á heimasíðu Gídeonfélagsins á Íslandi, þið eruð allavega klárari á netið en ég ef þið finnið á síðu félagsins hverjir eru í stjórn þess.

En nýji forsetinn, sem ég náði ekki nafninu á, er þeirrar skoðunar að skilningur Reykjarvíkurborgar á mannréttindum sé eitthvað skrýtinn. Það sé nefnilega ekki mannréttindi að minnihlutinn geti haft af meirihlutanum það góða samstarf sem hefur ríkt á milli trúfélaga og skóla hingað til.

Það eru s.s. ekki mannréttindi þegar meirihlutinn getur ekki haft sitt fram lengur fyrir vælinu í minnihlutanum.

Það hefur einhver skrýtnar skilgreiningar á mannréttindum en ég held að það sé nokkuð ljóst að það er ekki borgin.

Mannréttindi snúast ekki um meirihluta eða minnihluta. Þau snúast um rétt einstaklinga. Þau snúast um að virða ólíkar skoðanir og ólík gildi. Ef að barni og foreldrum þess er stillt þannig upp við vegg að annað hvort taki barnið þátt í trúarathöfnum trúarbragða sem það tilheyrir ekki eða þá að það sé fjarlægt frá úr sínum hefðbundna hóp á meðan þá er ekki verið að virða réttindi barnsins. Alveg óháð öllum meiri- eða minnihlutum.

Gídeonfélagið er trúboðafélag. Félagið hefur þann tilgang að „ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist“. Dreifing NT til grunnskólabarna er ein helsta aðferð félagsins í trúboðinu hér á landi. Félagsmenn leitast við að lesa upp úr ritinu fyrir börnin þegar þeir mæta inn í bekki. Þeir vilja líka biðja með  börnunum.

Þetta er klárt trúboð. Og skilningur félagsmanna er ekki meiri en svo að þeir halda að svo lengi sem þeir hafi einhvern óskilgreindan meirihluta með sér þá geti þeir ekki verið að brjóta á réttindum barna sem ekki eru kristin.

Mikið ofboðslega er ég feginn að þetta fólk fái ekki lengur aðgang að grunnskólabörnum á skólatíma.

Friðrik Schram og Ted Haggard

20/09/2011

Í síðustu viku skrifaði ég pistil um þá ákvörðun Reykjarvíkurborgar að veita Kristskirkjunni ekki styrk á grundvelli skoðana forstöðumanns Kristskirkjunnar, skoðana sem eru fráleitt einskorðaðar við þetta eina trúfélag. Þær skoðanir sem ég setti fram í þeim pistli standa ennþá þrátt fyrir að Friðrik Schram, forstöðumaðurinn umræddi, hafi gert sitt besta til þess að ljá stuðningsmönnum borgarinnar í þessu máli öll vopn í hendurnar seinustu daga.

Friðrik skrifar t.d. grein í Fréttablaðið í dag. Í greininni tyggur hann upp sömu þvæluna og Gunnar í Krossinum og fleiri hafa gert í gegnum tíðina þegar kemur að samkynhneigð, þ.e. að það eigi að hatast við syndina en ekki syndarann og að það sé í lagi að vera samkynhneigður svo lengi sem kynlíf sé ekki stundað.

Þetta er ákaflega heimskuleg mantra og gjörsamlega úr takti við raunveruleikann. Þetta er eins og fótboltaþjálfari sem heldur því fram að það sé í fínu lagi að vera örfættur svo lengi sem fólk er ekki að sparka með vinstri fæti.

Það að hata það sem manneskja er er aldrei falleg skoðun, sama í hvaða búning hatrið er klætt.

Fyrir utan það þá koma þessir kónar alltaf upp um sig. Gunnar í Krossinum átti t.d. (og á kannski ennþá) erfitt með að nota önnur orð en kynvilla og kynvillingar þegar hann ræddi um samkynhneigða. Menn sem nota viljandi orð sem þeir vita að særa og meiða, sýna þeir viðkomandi virðingu og ást?

————–

Á heimasíðu Kristskirkju er að finna kostulega grein sem Friðrik hefur þýtt sjálfur um eiginmenn eigi að viðhalda heilbrigðu og Guði þóknanlegu kynlífi. (Finnst einhverjum öðrum en mér áhugi Guðs og Friðriks á kynlífi annara krípi btw? Þetta eru ekki kónar sem ég vildi hafa á rúmstokknum). Greinin er eftir engan annan en Ted Haggard.

Ted Haggard er auðvitað sérfræðingur í Guði þóknanlegu kynlífi. Og reyndar líka kynlífi sem Guð fílar minna. Um árabil stundaði hann nefnilega það fyrra með konunni sinni og það seinna með hinum og þessum karlmönnum, þ.á.m. fylgarþjónustupiltum sem hann fékk til að mæta með amfetamín, svona til að framlengja nú syndina aðeins.

Þeir eru ágætir saman félagarnir í siðaboðskapnum, Schram og Haggard.

Jón Valur Jensson brjálast yfir tilvonandi jafnræði lífsskoðana

20/09/2011

Jón Valur Jensson er brjálaður. Og af hverju er JVJ brjálaður? Jú, af því að nú á að fara að veita enn einum hópnum sem er öðruvísi en hann er sjálfur sömu réttindi og hann hefur. Þetta virðist fara illa í JVJ. Ég ætla aðeins að fara yfir það sem þessi mikli mannréttindavinur skrifar um þær fáránlegur tillögur sem munu von bráðar koma fram á þingi um að lífsskoðunarfélög sem ekki byggja á trú fái sömu réttindi og trúfélög.

Þau fyrrnefndu eru með hraðsuðunámskeið fyrir „fermingarbörn“ sín, en nánast ekkert samfélag um mannrækt né siðrækt eftir það.

Hér talar JVJ í fleirtölu en staðreyndin er að svona breyting myndi bara hafa áhrif á eitt félag á Íslandi, Siðmennt. Og hefur mannvinurinn mikli rétt fyrir sér? Öhh, nei. Siðmennt býður upp á giftingar, útfarir, nafngjafarathafnir auk borgaralegu fermingarinnarsem JVJ kallar af einhverjum ástæðum hraðsuðunámskeið. Einhvern tíma hefði það þótt furðuleg nafngift á námskeiði sem inniheldur tólf 80 mínútna kennslustundir.

Auk þessa heldur Siðmennt fundi og námskeið um málefni sem tengjast húmanisma og jafnrétti lífsskoðana ásamt því að félagið kemur öðru hverju að því að flytja inn erlenda fyrirlesara. Þetta er engan vegin tæmandi upptalning á starfi Siðmenntar, en hún ætti að sýna fram á að fordómar JVJ eru, tjahh, bara fordómar.

Nefnd lífsskoðunarfélög „miða starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt,“ en naumast er nokkur samfella né samræmi meðal trúlausra um grunn sinna siðferðisgilda, enda fjöldamargt (og innbyrðis ósamstætt) til í vopnabúri hinna ólíkustu heimspekinga og siðfræðinga veraldlegra, sem trúausir geta leitað til, en seint orðið sammála um. Eru þar sumir efahyggjumenn, aðrir dogmatískir í sinni afneitun og enn aðrir dogmatískir um óvissuhyggjuna.

Þetta á auðvitað ekki við um trúfélögin sem njóta stuðnings og styrkja ríkisins í dag. Það er mikil samfella og samræmi á milli kaþólskra, múslima, ásatrúarmanna og svo aðventista eins og ég er viss um að JVJ samþykkir fúslega. Trúarleiðtogar og guðspjallamenn eru meira og minna allir þeir sömu hjá trúarhópum heimsins og litlar deilur um siðferðisgildi og kennisetningar.

Markmið þeirra breytinga, sem ráðherrann hyggur á, mun vera „að tryggja jafnræði“, en þetta mun trúlega leiða til þess, að sjóðir safnast upp hjá Siðmennt og jafnvel herskáum trúleysingjum.

Já, það væri nú auðvitað hræðilegt ef einhverjir sjóðir söfnuðust upp hjá Siðmennt og lítið jafnræði í því.

En JVJ er eiginlega alveg örugglega að vísa til Vantrúar þegar hann talar um „herskáa“ trúleysingja. Látum vera  að þegar talað er um herskáa trúmenn þá er í mörgum tilfellum átt við einstaklinga og hópa sem beita ofbeldi og jafnvel hryðjuverkjum en að herskáir trúleysingjar eru fólk sem gengur svo langt að hreinlega skrifa greinar á internetið og í blöðin!

En Vantrú er ekki lífsskoðunarfélag í anda Siðmenntar. Félagið hefur aldrei sóst eftir samskonar skilgreiningu og mun ekki gera það nema að gerðar verði grundvallarbreytingar á eðli og stefnu félagsins. Vantrú er á móti því að ríkið styrki trúar- og lífsskoðanir. Fólk sem vill tilheyra trú- og lífsskoðunarfélögum á einfaldlega að standa undir kostnaði þeirra sjálft.

Þannig að hógværi trúmaðurinn Jón Valur Jensson þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Vantrú fái hreinlega peninga frá ríkinu eins og hvert annað trúfélag.

Eins og önnur lagafrumvörp heimshyggjunnar, sem gengið hafa gegn kristnum sið í landinu, mun þetta frumvarp eflaust fá forgangsmeðferð á þingi vinstri flokkanna…

Gengið hafa gegn kristnum sið í landinu! Það er aldeilis. Það að ásatrúarfólk, múslimar, hindúar, gyðingar, búddistar og fólk af hvaða öðrum trúarbrögðum sem eiga sér sögu geti (og hafi í mörgum tilfellum) stofnað trúfélög og fengið sóknargjöld og stuðning og vernd hins opinbera er í fínu lagi. En að það sama gildi um Siðmennt er hreinlega aðför að kristnum sið í landinu!

Auðvitað er þetta fáránlegur málflutningur manns sem getur ekki samþykkt það að heimurinn hagi sér ekki eftir grillunum sem lifa í höfðinu á sér. Og sjálfsagt er algjör óþarfi að benda á hversu veikum fótum svona áróður stendur. En stundum þarf maður bara að pústa aðeins, þegar fordómar illa áttaðs fólks menga andrúmsloftið.

Greinin birtist fyrst á Vantrú.

Þjófstartað – punktablogg

18/09/2011

Hér birtist áðan pistill sem átti ekki að birtast strax. Ég tók hann út af því að honum er ætlað að birtast á öðrum vettvangi áður en hann birtist hér. Það er semsagt ekki um neina ritskoðun að ræða heldur einfaldan klaufaskap i sjálfum mér því ég hafði steingleymt að breyta birtingaráætluninni sem ég var búinn að stilla pistilinn á.

En fyrst ég er byrjaður að skrifa, hvað með smá punktablogg?

  • Væri í alvörunni til of mikils mælst að Stöð2Sport2 sýndi þeim sem punga út fyrir áskrift þá virðingu að láta auglýsingahlé ekki ná fram yfir byrjun leikja? Nú er í gangi fimmta umferð þessa tímabils í ensku deildinni og nú þegar hefur þetta gerst í fjórum leikjum svo ég viti til
  • Þessi pistill Davíðs Þórs. Ég skil alveg hvað Davíð er að fara en mér finnst hann fremja Sannan skota að einhverju leyti. Og svo finnst mér óskiljanlegt að bendla siðrænan húmanisma við voðaverk kommúnista gegn trúuðu fólki. Ég veit ekki til þess að siðrænn húmanismi hafi verið yfirskrift þeirrar hugmyndafræði sem þar réði ferðinni.
  • Nú er verið að rifja upp gamla frétt þar sem Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson höfðu mælt með aðildarviðræðum við ESB. Ég skil ekki hverju svona á að skila. Þetta er aðferðafræði úr smiðju AMX og Andríkis. Og trúið mér, ef það á virkilega að fara út í svona æfingar þá vinna þeir því að þeir hafa fullkomnað þessa aðferð í gegnum tíðina. Svo finnst mér það eiginlega bara ekkert fréttnæmt að stjórnmálamaður hafi þá skoðun sem helst hentar hverju sinni.
  • Ég á Aygo, sem er mjög sparneytinn bíll. Samt er ég strax farinn að sjá hverju það munar fyrir mig í bensíneyðslu að þurfa ekki að keyra inn í hafnarfjörð 3-4 sinnum í viku eins og seinustu fjögur ár. Enn einn kosturinn við það að útskrifast.
  • Ég er búinn að taka mjög mikið af myndum undanfarið en nánast bara fyrir leikskólann. Sem þýðir að ég get ekki birt myndirnar opinberlega. Ég þarf að fara að taka meira af myndum fyrir sjálfan mig.
  • Og hey! Haustlitir.
  • Æi ohh, stormur.
Ég held að ég láti þetta nægja í bili.

Hommarnir, lesbíurnar og styrktu trúfélögin

10/09/2011

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að veita Kristskirkjunni ekki fyrirhugaðan byggingarstyrk vegna skoðana forstöðumanns kirkjunnar á hommum og lesbíum eins og lesa má hér. Mér finnst tvennt athugavert við þessa ákvörðun borgarinnar:

1. Af hverju er Kristskirkjunni refsað sérstaklega fyrir þá skoðun að samkynhneigð sé af hinu slæma og að samkynhneigðir ættu ekki að njóta sömu réttinda og aðrir? Er þetta ekki nokkurn vegin afstaða meira og minna allra trúfélaga á Íslandi? Er t.d. einhver búinn að gleyma áralangri baráttu ríkiskirkjunnar gegn réttindum samkynhneigðra? Lýsa eftirfarandi orð Karls Sigurbjörnssonar biskups um hjónabönd samkynhneigðra skoðunum sem eru annars eðlis en þær sem Friðrik Schram hefur lýst?

Ég held að hjónabandið eigi það inni hjá okkur að við allavegana köstum því ekki á sorphauginn alveg án þess að hugsa okkar gang. #

Það væri líklega hægt að fylla marga pistla með tilvitnunum og gömlum fréttum þar sem fordómar gagnvart hommum og lesbíum hafa komið í ljós í íslenskum trúfélögum. Mér finnst alveg vanta rökstuðning fyrir því að það sem forstöðumaður Kristskirkjunnar boðar sé verra en það sem gengur og gerist í trúarbransanum á Íslandi.

2. Eins röng, heimskuleg, fordómafull og asnaleg mér finnst skoðun Friðriks á samkynhneigðum vera þá á hann rétt á henni. Það er ekki bannað að hafa rangar, heimskulegar fordómafullar og asnalegar skoðanir, sem betur fer.

En hið opinbera veitir trúfélögum styrki. Í mín eyru hljómar það einkennilega að hið opinbera taki upp á því að neita trúfélögum sem hafa idjótískar skoðanir, skoðanir sem eru nota bene að miklu leiti dregnar af trúnni sem félagið er myndað utan um, um styrki úr opinberum sjóðum. Ef trúfélög eiga að fá opinbera styrki þá finnst mér eiginlega ekki hægt að mismuna þeim eftir trúarskoðunum, sama hversu slæmar þær skoðanir eru. Svo lengi sem ekki er um að ræða eitthvað ólöglegt þ.e.

En auðvitað finnst mér fyrst og fremst að hið opinbera eigi bara ekki að styrkja trúfélög yfirhöfuð.

Henry Birgir og krabbameinið

19/08/2011

Henry Birgir Gunnarsson, íþróttafréttamaður á Fréttablaðinu, skrifaði pistil í blaðið í gær þar sem hann færir rök fyrir þeirri skoðun sinni að helsta vandamál knattspyrnunnar í dag sé leikaraskapur. Ég er reyndar ósammála þessari skoðun hans, að mínu mati er spilling, óráðssía og fáránlegar ákvarðanir FIFA, UEFA og annara knattspyrnusamtaka miklu stærra vandamál en ég get alveg tekið undir að leikaraskapur sé hvimleiður fylgifiskur fótbolta í dag.

En í pistlinum skrifar Henry m.a. þetta:

Við fjölmiðlamenn þurfum einnig að líta í eigin barm og vera óhræddari við að gagnrýna svindlarana og láta þá svara til saka fyrir gjörðir sínar.

Undir þetta má taka. Þess vegna skýtur það skökku við að sjá ekki einn leikmann nefndan með nafni í þessum pistli. Henry talar um framherja Víkings og leikmann FH og hlýfir þannig einmitt svindlurunum sem hann vil skera upp herör gegn. Vonandi lætur hann vaða næst og segir okkur einfaldlega um hverja hann er að tala.

 

Langt svar við leiðinlegri spurningu um leikskólakennara

18/08/2011

Spurt hefur verið: af hverju fórstu í þetta nám vitandi það að launin væru svona léleg?

Svarað er nú: af því að mér fannst starfið áhugavert, námið spennandi og fagheimurinn fullur af skemmtilegum pælingum sem eru í sífelldri þróun. Já og vegna þess að mér finnst gaman að umgangast og að vinna með börnum. Og það gleymdist alveg að segja mér að lág laun væru náttúrulögmál og að þegar ég hóf nám hafi ég fyrirgert rétti mínum til þess að krefjast hærri launa en þeirra sem voru í boði á þeim tíma.

Ég lít ekki svo á, og vil helst ekki að þið gerið það heldur, að ég hafi verði að fórna mér af einhverri góðmennsku. Ég hef einfaldlega brennandi áhuga á þessu starfi og þessum fræðum. Með því fylgir auðvitað að ég vil gera mitt til þess að veita þeim börnum sem ég kynnist í starfinu þá menntun, vinskap og umhyggju sem ég get veitt þeim.

Starfið er gríðarlega gefandi. Það eru kannski launin fyrir „góðmennskuna“. En starfið er líka gríðarlega krefjandi og getur jafnvel á stundum verið slítandi, andlega og líkamlega. Mér finnst ég ekki vera frekur eða furðulegur fyrir að vilja að vinnuveitandi minn greiði mér laun í samræmi við það sem fólk í viðmiðunarstéttum eins og grunnskólakennarar (ég sat nota bena þónokkra áfanga með grunnskólakennurum í mínu námi) fær fyrir sína góðu vinnu.

SÍS í skrýtum leik

17/08/2011

Enn er deilt um hvort að leiðbeinendur megi ganga í störf leikskólakennara í yfirvofandi verkfalli. Þetta er furðuleg deila, svo furðuleg að ég er ekki ennþá viss um að SÍS ætli raunverulega að láta á þetta reyna. Mig grunar að þetta sé fyrst og fremst taktík, að takmarkið sé að gera leikskólakennara að vonda fólkinu sem stendur í vegi fyrir því að leikskólar geti – löglega – tekið við börnum þrátt fyrir verkfall. Leikskólakennarar versus fjölskyldurnar.

En þetta er fáránleg pæling. Hverjum dettur í hug að þegar fagstétt leggur niður vinnu geti vinnuveitandinn leyst málið með því að láta ófaglærða einfaldlega ganga í störfin? Sér einhver fyrir sér að ef að sjúkraliðar færu í verkfall gætu ófaglærðir starfsmenn, eins og finnast á fjölmörgum hjúkrunarstofnunum, einfaldlega leyst þá af á meðan? Svona í alvöru?

Framkoma SÍS er pólitíkusunum sem þar ráða ríkjum ekki til framdráttar.

Pólitíkusar ögra leikskólakennurum

17/08/2011

Þetta bréf var ekkert annað en ögrun frá pólítíkusunum í Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Pólitíkusana í stjórninni má sjá í góðri bloggfærslu Harðar Svavarssonar.

Fyrir það fyrsta þá er það algjör sturlun að ætla sér að halda starfsemi gangandi í leikskólum á meðan félagar í FL eru í verkfalli. Starfsfólki inni á deildum myndi snarfækka. Mismikið eftir leikskólum auðvitað en það er t.d. augljóst að á Akureyri þar sem hlutfall félaga leikskólakennara er á flestum leikskólum yfir 80% mun ekki vera hægt að taka á móti mörgum börnum. Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið almennt ekki jafn hátt og á Akureyri en það mun samt sem áður engan vegin verða hægt að taka á móti nema hluta af börnum hvers leikskóla á hverjum degi. Fyrir svo utan þá staðreynd að ekki verður heldur hægt að halda áfram að aðlaga þann risastóra hóp af börnum sem nú eru að fara að byrja í leikskóla. Árgangurinn sem nú er að byrja í leikskóla, 2010 börnin, er einn sá stærsti í sögu þjóðarinnar.

Ef SÍS fengi sitt fram yrðu þeir starfsmenn inni á deildum leikskóla sem ekki eru í FL (fyrst og fremst leiðbeinendur en líka t.d. aðstoðarleikskólastjórar) undir gríðarlegu álagi. Upp til hópa er þarna um að ræða hæft og gott leikskólafólk en þær aðstæður sem þeim yrði boðið upp á væru slítandi og erfiðar. Ekki síst af því að með þessu útspili sínu er SÍS í raun að stilla þeim upp gagnvart leikskólakennurum, fólki sem vinnur við hlið þeirra á hverjum degi. Þeir eru orðnir að peðum í refskák SÍS. Þetta er lúaleg taktík.

En auðvitað áttum við leikskólakennarar að búast við þessu. Það bendir allt til þess að af verkfalli verði og nú ætla pólitíkusarnir í SÍS að reyna að snúa almenningsálitinu gegn okkur. Það gera þeir með því að reyna að láta líta út fyrir að löglegt sé að samstarfsfólk okkar sem ekki er í FL gangi í okkar störf en að við viljum koma í veg fyrir þetta. Þannig reyna þeir að gera okkur ábyrg fyrir vandræðunum sem verkfallið mun skapa fyrir fjölskyldurnar. Það gera þeir með því að segja kröfur okkar óraunhæfar og að við séum frek, þó að við séum í raun bara að biðja um leiðréttingu vegna þess að öfugt við viðmiðunarstéttir þá frusum við inni með samning sem rann út 2008. Það gera þeir með því að reyna að rugla umræðuna með leikfimisæfingum með tölur.

Við getum búist við fleiri ögrunum. Við getum búist við ústpilum sem eiga að reita okkur til reiði og fá okkur til að gera eða segja eitthvað sem gæti snúið almenningsálitinu gegn okkur. Við getum búist við því að þeir mæti á fundi með báðar hendur tómar en fullyrði svo að það sé ekki hægt að tala við okkur vegna óbilgirni okkar.  Við getum búist við því að þeir reyni að svæla okkur út með því að láta verkfallið dragast á langinn. Og við getum búist við því að þeir fari að biðla til löggjafans um að setja á okkur lög þegar líður á verkfall.

En munum þetta: þeir eru pólitíkusar. Þeir munu aldrei þurfa að bera neina ábyrgð á sinni taktík. Við þurfum að standa á okkar gagnvart samstarfsfólki okkar, foreldrum og börnum. Við skulum halda okkar einföldu og eðlilegu kröfum á lofti og svara því sem svara þarf yfirvegað og með rökum. Leyfum pólitíkusunum að spinna á rokkunum sínum.

Reykholt

13/08/2011

Fleiri myndir úr ferðinni góðu. Í þetta skiptir úr Reykholti. Allt settið er hér.