Archive for the ‘Trúmál’ Category

Úrsögn úr Sjálfstæðisflokknum

22/11/2011

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið breiðfylking hægri manna á Íslandi. Innan hans hafa rúmast misjafnar skoðanir á fólks á hægri væng stjórnmálanna. Styrkur flokksins hefur verið sá að stefna hans hefur verið mörkuð á þann hátt að jafnvel þó að ekki allir hægri menn hafi getað tekið undir allt í henni hefur ekki verið gengið fram á hátt sem gerir ákveðnum hópum það nánast útilokað að starfa með flokknum. Á undanförnum misserum hefur því miður orðið misbrestur á þessu.

Einn af þeim hópum sem alltaf hefur verið áberandi í starfi Sjálfstæðisflokksins eru þeir sem kalla má kristilega íhaldsmenn. Þeir hafa jafnan barist fyrir því að flokkurinn verji kristni og Þjóðkirkjuna. Það hefur gengið misvel. Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki markað sér opinbera stefnu á landsfundi um aðskilnað ríkis og kirkju sem má e.t.v. telja eðlilegt í ljósi þess að skiptar skoðanir eru um það málefni innan flokksins og ólíklegt að hægt væri að ná sátt um afstöðu í aðra hvora áttina. Flokkurinn endurspeglar þannig ekki afstöðu þjóðarinnar í málinu þar sem meirihluti hefur verið fyrir aðskilnaði í könnunum Gallup í hartnær tvo áratugi.

Undanfarið hefur mörgum fundist Sjálfstæðisflokkurinn hafa tekið skarpa beygju í átt til kristilegrar íhaldssemi. Það sást vel í umræðum um nýlegar reglur Reykjarvíkurborgar um samstarf lífsskoðunar- og trúfélaga við menntastofnanir. Þar beittu fulltrúar flokksins í borgarstjórn og nefndum borgarinnar sér gegn reglunum og endurómuðu í þeirri baráttu spuna ættaðan frá Biskupsstofu sem ekki var alltaf vandaður eða réttur.

Nú hefur svo 40. landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkt að standa vörð um tengsl Þjóðkirkjunnar við ríkið og í raun er gengið lengra þar sem uppihald kirkjunnar og annara trúfélaga með framlögum úr ríkissjóði, sem ranglega eru kölluð félagsgjöld, eiga nú að vera tryggð betur en verið hefur gert skv. fundinum.

Þessar samþykktir má finna í ályktun landsfundar um innanríkismál. Í stjórnmálaályktun landsfundar stendur svo eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi.

„Kristin gildi“ er líklega einhver þvældasta klisja trúmálaumræðunnar á Íslandi. Þetta er merkingarlaus frasi því að hann er bæði notaður til þess að lýsa náungakærleika og svo til þess að festa í sessi fordóma og óþol, t.d. gagnvart samkynhneigðum. Flokkurinn á svo að hlúa sérstaklega að „kirkju“, sem augljóslega vísar til ríkisstofnunarinnar Þjóðkirkju.

Þeim sem aðhyllast minni ríkisafskipti af málefnum einstaklinga, hvað þá minni fjáraustur ríkisins til fyrirbæra sem hafa alla burði til að reka sig sjálf og engin sjáanleg þörf er fyrir að rekin séu með skattpeningum almennings, hlýtur að blöskra.

Framganga formanns flokksins, Bjarna Benediktssonar, undanfarna mánuði hefur einnig vakið athygli. Í ræðustóli alþingis við seinustu eldhúsdagsumræður vakti hann athygli á því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði íhugað að segja sig úr Þjóðkirkjunni og fann því allt til foráttu. Af hverju gróf Bjarni upp rúmlega ársgömul ummæli Jóhönnu á þeim vettvangi? Og af hverju telur Bjarni að trúfélagaskráning einstaklinga sé yfirhöfuð eitthvað sem honum kemur við? Það ríkir trúfrelsi í landinu, það nær líka til ráðherra í ríkisstjórn.

Trúfrelsi varð Bjarna svo tilefni til furðulegra ummæla í setningarræðu sinni á nýliðnum landsfundi. Þar sagði hann:

Trúfrelsið er misskilið. Sumir virðast halda að það snúist um að enginn megi hafa neina trú – og alveg sérstaklega ekki kristna.

Hér bergmálar Bjarni fórnarlambskjökur forvígismanna ríkiskirkjunnar, einnar elstu og sterkustu valdastofnunar ríkisins. Staðreyndin er hins vegar sú að engin hefur lýst skoðunum sem gefa tilefni til ummæla á þessum nótum.

Þegar allt er tekið saman er augljóst að flokkurinn er að færa sig enn frekar inn á lendur kristilegrar íhaldssemi. Þær skoðanir sem settar hafa verið fram, bæði af formanni og kjörnum fulltrúum, rýma illa við hugmyndir um að ríkið eigi að skipta sér sem minnst af persónulegum málefnum einstaklinga. Þær passa líka illa við hugmyndir um að skattfé almennings fari ekki í uppihald á stofnunum sem vel geta rekið sig sjálfar.

Ég get ekki unnið stefnu hylli sem innifelur það að ein lífsskoðun sé réttari og að þeir sem hana aðhyllast skuli hafa meiri rétt og meira vægi en aðrir. Ég get ekki stutt stefnu sem felur í sér að ríkið úthluti trúfélögum (athugið að hvergi í ályktunum landsfundar er minnst á lífsskoðunarfélög í þessu samhengi) fjárframlögum úr ríkissjóði og styðji auk þess sérstaklega eitt trúfélag umfram önnur.

Þess vegna hef ég sagt mig úr Sjálfstæðisflokknum.

Það kemur þó fleira til en varðstaða flokksins um ríksivædd trúarbrögð. Mér hefur ekki líkað við vinnubrögð núverandi forystu flokksins, mér líkar ekki við dálæti fjölmargra flokksfélaga á ákveðnum fyrrverandi formanni sem einsamall jarðaði ágæta skýrslu endurreisnarnefndar á landsfundi 2009 með hótfyndni og leiðindum, ég er kominn með ógeð á ungliðapólitíkinni í flokknum og síðast en ekki síst hef ég fengið talsvert óþol á pólitík almennt.

Kannski finnst einhverjum flokksmeðlimum þetta ekki réttlátar ástæður. En á meðan ég er á þessum stað get ég ekki verið í Sjálfstæðisflokknum.  Í gegnum flokksstarfið hef ég eignast marga góða vini og félaga og á árunum sem ég var virkastur var yfirleitt ofboðslega gaman að starfa í flokknum. Þessum vinum og félögum óska ég alls góðs. Ég verð auk þess áfram frjálslyndur í stjórnmálaskoðunum og flokka sjálfan mig hægra megin við miðju.

En nú skilja leiðir.

Friðrik Schram og Ted Haggard

20/09/2011

Í síðustu viku skrifaði ég pistil um þá ákvörðun Reykjarvíkurborgar að veita Kristskirkjunni ekki styrk á grundvelli skoðana forstöðumanns Kristskirkjunnar, skoðana sem eru fráleitt einskorðaðar við þetta eina trúfélag. Þær skoðanir sem ég setti fram í þeim pistli standa ennþá þrátt fyrir að Friðrik Schram, forstöðumaðurinn umræddi, hafi gert sitt besta til þess að ljá stuðningsmönnum borgarinnar í þessu máli öll vopn í hendurnar seinustu daga.

Friðrik skrifar t.d. grein í Fréttablaðið í dag. Í greininni tyggur hann upp sömu þvæluna og Gunnar í Krossinum og fleiri hafa gert í gegnum tíðina þegar kemur að samkynhneigð, þ.e. að það eigi að hatast við syndina en ekki syndarann og að það sé í lagi að vera samkynhneigður svo lengi sem kynlíf sé ekki stundað.

Þetta er ákaflega heimskuleg mantra og gjörsamlega úr takti við raunveruleikann. Þetta er eins og fótboltaþjálfari sem heldur því fram að það sé í fínu lagi að vera örfættur svo lengi sem fólk er ekki að sparka með vinstri fæti.

Það að hata það sem manneskja er er aldrei falleg skoðun, sama í hvaða búning hatrið er klætt.

Fyrir utan það þá koma þessir kónar alltaf upp um sig. Gunnar í Krossinum átti t.d. (og á kannski ennþá) erfitt með að nota önnur orð en kynvilla og kynvillingar þegar hann ræddi um samkynhneigða. Menn sem nota viljandi orð sem þeir vita að særa og meiða, sýna þeir viðkomandi virðingu og ást?

————–

Á heimasíðu Kristskirkju er að finna kostulega grein sem Friðrik hefur þýtt sjálfur um eiginmenn eigi að viðhalda heilbrigðu og Guði þóknanlegu kynlífi. (Finnst einhverjum öðrum en mér áhugi Guðs og Friðriks á kynlífi annara krípi btw? Þetta eru ekki kónar sem ég vildi hafa á rúmstokknum). Greinin er eftir engan annan en Ted Haggard.

Ted Haggard er auðvitað sérfræðingur í Guði þóknanlegu kynlífi. Og reyndar líka kynlífi sem Guð fílar minna. Um árabil stundaði hann nefnilega það fyrra með konunni sinni og það seinna með hinum og þessum karlmönnum, þ.á.m. fylgarþjónustupiltum sem hann fékk til að mæta með amfetamín, svona til að framlengja nú syndina aðeins.

Þeir eru ágætir saman félagarnir í siðaboðskapnum, Schram og Haggard.

Jón Valur Jensson brjálast yfir tilvonandi jafnræði lífsskoðana

20/09/2011

Jón Valur Jensson er brjálaður. Og af hverju er JVJ brjálaður? Jú, af því að nú á að fara að veita enn einum hópnum sem er öðruvísi en hann er sjálfur sömu réttindi og hann hefur. Þetta virðist fara illa í JVJ. Ég ætla aðeins að fara yfir það sem þessi mikli mannréttindavinur skrifar um þær fáránlegur tillögur sem munu von bráðar koma fram á þingi um að lífsskoðunarfélög sem ekki byggja á trú fái sömu réttindi og trúfélög.

Þau fyrrnefndu eru með hraðsuðunámskeið fyrir „fermingarbörn“ sín, en nánast ekkert samfélag um mannrækt né siðrækt eftir það.

Hér talar JVJ í fleirtölu en staðreyndin er að svona breyting myndi bara hafa áhrif á eitt félag á Íslandi, Siðmennt. Og hefur mannvinurinn mikli rétt fyrir sér? Öhh, nei. Siðmennt býður upp á giftingar, útfarir, nafngjafarathafnir auk borgaralegu fermingarinnarsem JVJ kallar af einhverjum ástæðum hraðsuðunámskeið. Einhvern tíma hefði það þótt furðuleg nafngift á námskeiði sem inniheldur tólf 80 mínútna kennslustundir.

Auk þessa heldur Siðmennt fundi og námskeið um málefni sem tengjast húmanisma og jafnrétti lífsskoðana ásamt því að félagið kemur öðru hverju að því að flytja inn erlenda fyrirlesara. Þetta er engan vegin tæmandi upptalning á starfi Siðmenntar, en hún ætti að sýna fram á að fordómar JVJ eru, tjahh, bara fordómar.

Nefnd lífsskoðunarfélög „miða starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt,“ en naumast er nokkur samfella né samræmi meðal trúlausra um grunn sinna siðferðisgilda, enda fjöldamargt (og innbyrðis ósamstætt) til í vopnabúri hinna ólíkustu heimspekinga og siðfræðinga veraldlegra, sem trúausir geta leitað til, en seint orðið sammála um. Eru þar sumir efahyggjumenn, aðrir dogmatískir í sinni afneitun og enn aðrir dogmatískir um óvissuhyggjuna.

Þetta á auðvitað ekki við um trúfélögin sem njóta stuðnings og styrkja ríkisins í dag. Það er mikil samfella og samræmi á milli kaþólskra, múslima, ásatrúarmanna og svo aðventista eins og ég er viss um að JVJ samþykkir fúslega. Trúarleiðtogar og guðspjallamenn eru meira og minna allir þeir sömu hjá trúarhópum heimsins og litlar deilur um siðferðisgildi og kennisetningar.

Markmið þeirra breytinga, sem ráðherrann hyggur á, mun vera „að tryggja jafnræði“, en þetta mun trúlega leiða til þess, að sjóðir safnast upp hjá Siðmennt og jafnvel herskáum trúleysingjum.

Já, það væri nú auðvitað hræðilegt ef einhverjir sjóðir söfnuðust upp hjá Siðmennt og lítið jafnræði í því.

En JVJ er eiginlega alveg örugglega að vísa til Vantrúar þegar hann talar um „herskáa“ trúleysingja. Látum vera  að þegar talað er um herskáa trúmenn þá er í mörgum tilfellum átt við einstaklinga og hópa sem beita ofbeldi og jafnvel hryðjuverkjum en að herskáir trúleysingjar eru fólk sem gengur svo langt að hreinlega skrifa greinar á internetið og í blöðin!

En Vantrú er ekki lífsskoðunarfélag í anda Siðmenntar. Félagið hefur aldrei sóst eftir samskonar skilgreiningu og mun ekki gera það nema að gerðar verði grundvallarbreytingar á eðli og stefnu félagsins. Vantrú er á móti því að ríkið styrki trúar- og lífsskoðanir. Fólk sem vill tilheyra trú- og lífsskoðunarfélögum á einfaldlega að standa undir kostnaði þeirra sjálft.

Þannig að hógværi trúmaðurinn Jón Valur Jensson þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Vantrú fái hreinlega peninga frá ríkinu eins og hvert annað trúfélag.

Eins og önnur lagafrumvörp heimshyggjunnar, sem gengið hafa gegn kristnum sið í landinu, mun þetta frumvarp eflaust fá forgangsmeðferð á þingi vinstri flokkanna…

Gengið hafa gegn kristnum sið í landinu! Það er aldeilis. Það að ásatrúarfólk, múslimar, hindúar, gyðingar, búddistar og fólk af hvaða öðrum trúarbrögðum sem eiga sér sögu geti (og hafi í mörgum tilfellum) stofnað trúfélög og fengið sóknargjöld og stuðning og vernd hins opinbera er í fínu lagi. En að það sama gildi um Siðmennt er hreinlega aðför að kristnum sið í landinu!

Auðvitað er þetta fáránlegur málflutningur manns sem getur ekki samþykkt það að heimurinn hagi sér ekki eftir grillunum sem lifa í höfðinu á sér. Og sjálfsagt er algjör óþarfi að benda á hversu veikum fótum svona áróður stendur. En stundum þarf maður bara að pústa aðeins, þegar fordómar illa áttaðs fólks menga andrúmsloftið.

Greinin birtist fyrst á Vantrú.

Hommarnir, lesbíurnar og styrktu trúfélögin

10/09/2011

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að veita Kristskirkjunni ekki fyrirhugaðan byggingarstyrk vegna skoðana forstöðumanns kirkjunnar á hommum og lesbíum eins og lesa má hér. Mér finnst tvennt athugavert við þessa ákvörðun borgarinnar:

1. Af hverju er Kristskirkjunni refsað sérstaklega fyrir þá skoðun að samkynhneigð sé af hinu slæma og að samkynhneigðir ættu ekki að njóta sömu réttinda og aðrir? Er þetta ekki nokkurn vegin afstaða meira og minna allra trúfélaga á Íslandi? Er t.d. einhver búinn að gleyma áralangri baráttu ríkiskirkjunnar gegn réttindum samkynhneigðra? Lýsa eftirfarandi orð Karls Sigurbjörnssonar biskups um hjónabönd samkynhneigðra skoðunum sem eru annars eðlis en þær sem Friðrik Schram hefur lýst?

Ég held að hjónabandið eigi það inni hjá okkur að við allavegana köstum því ekki á sorphauginn alveg án þess að hugsa okkar gang. #

Það væri líklega hægt að fylla marga pistla með tilvitnunum og gömlum fréttum þar sem fordómar gagnvart hommum og lesbíum hafa komið í ljós í íslenskum trúfélögum. Mér finnst alveg vanta rökstuðning fyrir því að það sem forstöðumaður Kristskirkjunnar boðar sé verra en það sem gengur og gerist í trúarbransanum á Íslandi.

2. Eins röng, heimskuleg, fordómafull og asnaleg mér finnst skoðun Friðriks á samkynhneigðum vera þá á hann rétt á henni. Það er ekki bannað að hafa rangar, heimskulegar fordómafullar og asnalegar skoðanir, sem betur fer.

En hið opinbera veitir trúfélögum styrki. Í mín eyru hljómar það einkennilega að hið opinbera taki upp á því að neita trúfélögum sem hafa idjótískar skoðanir, skoðanir sem eru nota bene að miklu leiti dregnar af trúnni sem félagið er myndað utan um, um styrki úr opinberum sjóðum. Ef trúfélög eiga að fá opinbera styrki þá finnst mér eiginlega ekki hægt að mismuna þeim eftir trúarskoðunum, sama hversu slæmar þær skoðanir eru. Svo lengi sem ekki er um að ræða eitthvað ólöglegt þ.e.

En auðvitað finnst mér fyrst og fremst að hið opinbera eigi bara ekki að styrkja trúfélög yfirhöfuð.

Stjórnlagaráðsfulltrúar, að gefnu tilefni

15/07/2011

Svo virðist sem að „lending“ Stjórnlagaráðs hvað varðar ákvæði um ríkiskirkju sé sú að tryggja stöðu ríkiskirkjunnar áfram. Nú er ákvæðið komið með sinn eigin kafla sem heitir „Þjóðkirkjan“ og er hann í þeim hluta tillagna Stjórnlagaráðs sem fjallar um undirstöður samfélagsins. Ég er eiginlega að hugsa um að endurtaka þetta svo að það fari ekki á milli mála hver millileiðin á milli þess að hafa ríkiskirkju í stjórnarskrá og að aðskilja ríki og kirkju er í augum stjórnlagaráðsfulltrúa: Í kafla sem fjallar um undirstöður þjóðfélagsuppbyggingarinnar hér á landi er sérstakur kafli sem heitir „Þjóðkirkjan“.

Í kaflanum segir að alþingi eigi að ákveða, og nú ætla ég að feitletra, kirkjuskipan, og nú breyta um lit til áherslu, ríkisins!

Ennfremur að allt sem alþingi ákveði í þessum málum verði að fara í þjóðaratkvæði, sem er engin breyting frá því sem nú er.

Ég ætla að vitna í orð nokkurra valinkunnra einstaklinga sem féllu merkilegt nokk á sérstakri síðu ríkiskirkjunnar um stjórnlagaþing sem nú virðist hafa verið tekin niður af einhverjum ástæðum:

Já, ég tel þörf á að breyta 62.grein stjórnarskrárinnar. Ég vil tryggja trúfrelsi á Íslandi þannig að allir einstaklingar hafi jafna möguleika á iðka þá trú sem þeir kjósa.
Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?

Ég vil afnema það samband sem í dag ríkir á milli ríkis og þjóðkirkjunnar.

-Ástrós Gunnlaugsdóttir

Að minni hyggju er ekki aðeins verið að tala um að gera breytingar á stjórnarskrá heldur að semja og setja nýja. Í samræmi við það falla allar greinar hinnar gömlu úr gildi og verða tæpast endurskrifaðar óbreyttar í hina nýju. Trúfrelsi finnst mér svo sjálfsagt að það hljóti að heyra undir almenna frelsisskilmála. Því tel ég að fella beri greinina burt án þess að nokkur ákvæði komi í hennar stað.

-Erlingur Sigurðarson

Ég tek það einfaldlega tímaskekkju að ein kirkjudeild njóti sérstaks stuðnings ríkisins. Meðan svo er get ég ekki séð að fullt trúfrelsi ríki í landinu, þar eð sú kirkjudeild mun ævinlega hafa mikið forskot á aðrar kirkjudeildir og önnur trúfélög.

-Illugi  Jökulsson

Ég hygg að væru menn að skrifa stjórnarskrána frá grunni í þá væri
afar ólíklegt að lagt yrði til að ein trúarskoðun eða eitt trúfélag
yrði tilgreint sérstaklega með hætti sem nú er gert. Mér fyndist því
eðlilegt að þessi umrædda grein myndi víkja úr stjórnarskráni. Í því
felst ekki árás á þá trúarskoðun eða það trúfélag heldur, heldur
byggist þetta á þeirri skoðun að ríkið eigi að vera hlutlaust þegar
kemur að trúmálum.

-Pawel Bartosek

Auk ofangreindra lýstu Freyja Haraldsdóttir, Ómar Ragnarsson, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson* því yfir að þau teldu að aðskilja ætti ríki og kirkju. Glöggir sjá að hér er um meirihluta að ræða innan stjórnlagaráðs.

Það tekst kannski einhverjum að það sem hér er vitnað í að ofan, auk almennra yfirlýsinga um stuðning við aðskilnað ríki og kirkju, ríma við „lendingu“ stjórnlagaráðs. Ég get það ekki. Mér finnst niðurstaðan lykta af því að látið hafi verið undan ríkiskirkjusinnum til að halda einhvern frið. Í leiðinni var vilji meirihluta þjóðarinnar, meirihluta stjórnlagaráðs og tveggja þjóðfunda hundsaður. Það eru mikil vonbrigði.

*Túlkun Arnar Bárðar á þessu er þó frekar skrýtin. Hann telur aðalatriðið að ríkið hætti að skipta sér af innri málum kirkjunnar, að hún stjórni sér sjálf, og að það hafi nú þegar náðst í gegn. Hann vill áfram að ríkið fjármagni kirkjuna.

Kristin þjóð og hvít

24/06/2011

Dögg Harðardóttir heldur áfram að gleðja. Í umræðum í stjórnlagaráði í dag (Dögg byrjar að tala á ca. 163 mínútu) fór hún á umtalsverðum kostum. Hún benti t.d. á að múslimar séu ekki sérstaklega umburðarlyndir, af því að þeir mega ekki breyta um trú. Af því tilefni langar mig að rifja upp fyrsta boðorð kristinna manna:

Ég er Drottin Guð þinn, þú skalt ekki aðra Guði hafa.

Afleiðingar þess að fara ekki eftir þessu boðorði eru vel þekktar og skjalfestar.

En þetta var nú bara svona smá upphitun hjá Dögg. Hún nefnilega veltir því fyrir sér að þar sem að Arnfríður Guðmundsdóttir stjórnlagaráðsfulltrúi hafi sagt að 21. öldin verði öld endurkomu trúarinnar, og Dögg tekur að sjálfsögðu fram að Arnfríður vitni oft í rannsóknir (því að eins og fram hefur komið þá er Dögg mjög hrifin af rannsóknum, sérstaklega þegar hún þarf ekki að vitna í þær), þá finnist henni nú alveg tilefni til þess að setja inn ákvæði um að hér búi kristin þjóð og að hún myndi styðja slíkt ákvæði.

Ég ætla að endurtaka þetta svo að ekkert fari á milli mála. Dögg Harðardóttir vill ákvæði inn í stjórnarskrá um að hér búi kristin þjóð. Þetta er ekki djók. Hún glotti ekki á meðan hún sagði þetta. Skoðið þetta bara á upptökunni.

Hvaða merkingu hefur það að setja svona í stjórnarskrá? Tvennt kemur til greina. a) Þetta er merkingarlaust hjal. Einhver yfirlýsing sem þýðir ekki neitt. Ef það er raunin þá á þetta ekki heima í stjórnarskránni frekar en annað tilgangslaust þvaður sem hefur enga merkingu. b) Þetta er tekið fram til þess að ekki fari á milli mála að réttindi þeirra sem tilheyra „þjóðinni“, því að þeir sem ekki hafa eiginleikann sem þjóðin er sögð hafa geta jú tæplega tilheyrt henni, eru meiri en annara. Væri svona ákvæði í núverandi stjórnarskrá yrðu allar þreifingar í ætt við þær sem Mannréttindaráð Reykjavíkur stendur í núna kæfðar í fæðingu með vísan í stjórnarskrá. Svo nefnt sé dæmi sem stendur nærri bæði mér og Dögg.

——————-

En ég er auðvitað bara að grínast. Ég er ekki bara sammála Dögg heldur finnst mér hún ekki ganga nógu langt. Mér finnst algjört lágmark að tekið sé fram að þjóðin sem býr hér sé líka hvít. Því allir „alvöru“ Íslendingar eru hvítir. Það á svo ekki að þurfa að taka það fram að Íslendingar eru líka gagnkynhneigð þjóð. Sem borðar fisk.

 

 

Kristniboðar í baráttu gegn réttindum barna

23/06/2011

Í gær birtist eftir mig á Vísi.is grein þar sem ég svara frekar furðulegri grein Daggar Harðardóttur. Dögg titlar sig sem stjórnlagaráðsfulltrúa sem á líklega að gefa orðum hennar meira vægi en hún er nú meira en bara það. Hún er fyrrverandi formaður Aglow – alþjóðlegra samtaka kristinna kvenna – á Íslandi. Aglow eru einhverskonar systursamtök Gídeon og eiga sér samskonar trúboðamarkmið. Dögg er líka gift Fjalari Frey Einarssyni sem er, þrátt fyrir að forðast að viðurkenna það opinberlega, formaður Gídeon á Íslandi.

Í dag birtist svo grein í Fréttablaðinu þar sem að það er tekið út fyrir allan vafa hvað það er sem að liggur á bakvið baráttuna gegn tillögum Mannréttindaráðs Reykjavíkur. Í greininni birtast þessar venjulega falsanir um að kvartanir vegna starfsemi trúfélaga og trúboðasamtaka séu einungis 22. En þar eru eingöngu tekin með þau dæmi þar sem lagðar voru fram formlegar kvartanir. Staðreyndin er sú, eins og allir vita sem hafa kynnt sér þessi mál, er að miklu fleiri hafa kvartað við stjórnendur viðkomandi skóla eða tómstundafélaga. Matti og Gyða, félagar mínir úr Vantrú, stóðu í svona baráttu í langan tíma. Þau eiga enga af þessum 22 kvörtunum. Það að halda því fram að einungis hafi 22 kvartað er fölsun og afvegaleiðing á umræðunni.

En tilgangurinn helgar líklega meðalið. Sérstaklega þegar haft  er í huga hvaða hugmyndir þetta fólk hefur um okkar sem styðja tillögurnar:

Við vitum að barátta okkar er ekki við menn heldur við andaverur vonskunnar í himingeiminum, samanber Efesusbréf 6. kafla Páls postula.

Þess vegna er svo mikilvægt að biðja fyrir þessu máli.

Önnur tilvitnun í greinina:

Við verðum að sjá til þess að börn fái að kynnast trúarlegri arfleifð okkar Íslendinga, að það sé eðlilegt að börn sem alast upp í kristnu landi fái Nýja testamentið að gjöf og að það sé eðlilegt að fara í kirkju og leita Guðs í öllum kringumstæðum lífsins.

Meira bull. Börn munu áfram fræðast um trúarlega arfleið okkar, með vörtum og öllu. Það stendur ekki til og hefur aldrei staðið til að breyta því. Enda liggur valdið til þess ekki hjá Mannréttindaráði. Þetta er ein algengasta lygi trúboðasinna í umræðunni. Og þetta er lygi. Því að þetta fólk, ég tala nú ekki um hina sprenglærðu klerka sem hafa tjáð sig á þennan hátt, einfaldlega hlýtur að vita að þetta er rangt.

Meirihlutarökin eru líka orðin þreytt. Jafnvel þó að meirihluti þjóðarinnar sé kristinnar trúar breytir það því ekki að öll börn hafa réttindi. Líka börn trúleysingja (andavera vonskunnar). Dögg Harðardóttur varð það á að vísa í réttindi barna og sérstaklega Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Því miður fyrir hana leiðir lestur á Barnasáttmálanum það í ljós að líklega er í dag brotið á réttindum barna og foreldra. Sjá fjórtándu grein sáttmálans (leturbreytingar mínar):

1. Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar.
2. Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess.
3. Frelsi til að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar til að gæta öryggis almennings, allsherjarreglu, heilsu almennings eða siðgæðis, eða grundvallarréttinda og frelsis annarra.

Ef að barni og foreldrum er stillt upp við vegg þannig að valið standi á milli þess að sitja undir trúarstarfi og hreinu trúboði (eins og í tilfelli Gídeon) eða að vera fjarlægt frá félagahópnum á meðan er þá verið að virða rétt þeirra? Ekki get ég séð það. Enda segir skýrsla samstarfshóps á vegum Reykjavíkurborgar (sem fólkið sem skrifar greinina vitnar í sem könnun) sem gefin var út 2007 að slíkt eigi ekki að gerast. Merkilegt nokk átti ríkiskirkjan fulltrúa í samstarfshópnum. Hann gerði enga fyrirvara við þessa ábendingu. Hvað ætli hafi breyst síðan þá? Ætli menn hafi áttað sig á því að nú ætti kannski að byrja að fara eftir þessu?

Skýrasta dæmið um það hvað þessi barátta snýst um kemur þó í lok greinarinnar þar sem höfundar hennar skrifa undir.

Valgerður Þóra Benediktsson
Í Samtökum kristinna kennslukvenna

Erdna Varðardóttir
leiðtogi fyrir Jesúkonur á Íslandi

Benedikt Jasonarson
kristniboði og kennari

Margrét Hróbjartsdóttir
kristniboði og hjúkrunarfræðingur

Einmitt.

Gangi tillögur Mannréttindaráðs eftir munu ríkiskirkjuprestar ekki lengur geta nálgast börn inn í skólana. Gídeonmenn verða að fara að „ávinna menn og konur fyrir Jesú Krist“ utan skólastofunnar.

En foreldrar geta ennþá alið börn sín upp í trú. Þeir geta ennþá valið að senda þau í Sunnudagaskóla, æskulýðsstarf á vegum trúfélaga og sumarbúðir KFUM og K. Gídeonmenn geta ennþá dreift NT til allra sem það vilja t.d. í fyrrnefndu starfi trúfélaga eða á eigin vegum. Trúarlíf landsmanna ætti því ennþá að standa styrkum fótum því að þessar í raun litlu breytingar gætu ekki skaðað eitthvað sem væri byggt á tryggum grunni.

Eða er það kannski akkúrat það sem menn eru ekki vissir um?

 

Að gefnu tilefni; Karl Sigurbjörnsson er opinber starfsmaður og þjóðkirkjan er ríkisstofnun

14/06/2011

Í skjóli 62. greinar stjórnarskrárinnar, þessarar sem að manni sýnist stjórnlagaráðsmenn ekki þora að taka afstöðu til eða ræða þrátt fyrir að hafa sumir líklega  fengið talsverðan stuðning einmitt út á afstöðu sinnar til hennar, er Þjóðkirkjan opinber ríkisrekin stofnun og starfsmenn hennar teljast opinberir embættismenn. Þó að í lögum um þjóðkirkjuna (þar sem öllum vafa um að prestar séu opinberir embættismenn er eytt) sé talað um að hún sé sjálfstætt trúfélag þarf ekki annað að en benda á að til eru sérstök lög um hana en engin önnur einstök trúfélög, að sóknir kirkjunnar þurfa að standa skil á reikningum til ríkisendurskoðunar og að prestar kirkjunnar sjálfir líta á hana sem ríkisstofnun eins og þessi orð séra Bjarna Þórs Bjarnasonar sýna mjög skýrt:

 Þetta eru svokölluð embættismannaskipti en til þeirra er verið að hvetja hjá stofnunum ríkisins. Þetta er tilbreyting fyrir alla, #

Ímyndum okkur nú í augnablik að í einhverri annari opinberri stofnun kæmi upp mál sambærilegt þeim málum sem kirkjan glímir nú við vegna þöggunar og meðvirkni sinnar í kjölfar endurtekinna kynferðisbrota Ólafs Skúlasonar. Að út kæmi skýrsla þar sem að margir lykilmenn stofnunarinnar, þ.á.m. æðsti stjórnandi hennar, fengju ákúrur. Og að æðsti stjórnandinn yrði m.a. uppvís að því að hafa í fortíðinni beitt sér til þess að ná niðurstöðu í máli þar sem hann hafði þegar tekið opinbera afstöðu með yfirmanni sínum og gegn þeim sem ásökuðu hann um kynferðisbrot. Að eftir að hann tók við sem æðsti stjórnandi hafi hann stungið vitnisburðis sem kæmi fyrrverandi yfirmanni sínum, sér sjálfum að ákveðnu leiti og ekki síst stofnuninni ákaflega illa undir stól í eitt og hálft ár. Og að það hafi þurft skjalavörð og pressu frá fjölmiðlum til þess eins að hann viðurkenndi tilvist vitnisburðarins.

Ætli stjórnandinn – og fleiri sem hefðu komið við sögu – fengju sjálfdæmi um viðbrögð stofnunarinnar við niðurstöðu rannsóknar? Ætli hann myndi eiga langa lífdaga í embætti ef hann kæmi fram og bæðist afsökunar EF hann hefði brugðist rangt við og að það hafi ekki haft nein áhrif á úrvinnslu vitnisburðarins gegn fyrrverandi yfirmanninum að hann hafi setið á honum í eitt og hálft ár? Og hvernig myndi það líta út þegar einungis einn af opinberu embættismönnunum sem tilheyrðu stofnuninni hefðu komið fram opinberlega og beðið æðsta stjórnandann um að íhuga alvarlega að segja af sér?

Ríkiskirkjan hér á Íslandi hefur alltof lengi fengið að hafa forréttindastöðu. Ein helsta vörn ríkiskirkjusinna er að benda á að hún sé nauðsynleg siðferði landsins. Málefni Ólafs Skúlasonar sem fyrst komu upp á yfirborðið fyrir 15 árum, ásamt vandræðum kirkjunnar vegna ýmissa annara mála sem komið hafa upp á síðkastið hér á landi og tengjst kynferðislegri brenglun klerka, afsanna í eitt skipti fyrir öll að íslenska ríkiskirkjan er ekki í fararbroddi í siðferðismálum á Íslandi. Það er sama hvort talað er um klerkana sem brjóta af sér eða kollega þeirra sem bregðast við. Með örfáum undantekningum hafa prestar ríkiskirkjunnar afsalað sér kyndlinum sem boðberar góðs siðferðis á Íslandi. Og það er kominn tími til þess að forréttindastaða þessa laskaða og forneskjulega trúfélags verði afnuminn.

Í það minnsta hvet ég þau ykkar sem eruð í ríkiskirkjunni og ofbýður atferli þjóna hennar að breyta trúfélagaskráningu ykkar. Það eru til mörg sjálfstæð trúfélög innan sömu trúar (t.d. fríkirkjurnar) og svo er líka bara fínt að vera utan trúfélaga. Hér er hægt að breyta trúfélagaskráningunni.

Áhugavert fréttamat RÚV

23/04/2011

Eins og ég bloggaði um í gær hélt Vantrú páskabingó til þess að mótmæla íslenskri helgidagalöggjöf (og fleiru,  lesið bara bloggið). Á Austurvelli söfnuðust saman líklega um 80 manns og skemmtu sér vel með kakó í annari, kleinu í hinni og bingóspjald í hin…nei við erum víst bara með tvær hendur. Þetta voru allvega bráðvel heppnuð mótmæli.

Og ég held að þau verði að teljst fréttnæm. Allavega töldu Fréttablaðið, Vísir.is, Bylgjan, DV og Stöð 2 að svo væri. Það var svosem lítið annað að gerast í gær. Það var svo lítið að gera að á mbl.is var sagt frá gönguferð sem farin var fyrir messu á Álfanesi. Þau miklu býsn gerðust víst líka að Passíusálmarnr voru lesnir víða, í þeim tilgangi að reyna skilja þjáningu Krists kannski. Í sjónvarpsfréttum RÚV var einmitt lika sagt frá geðsjúklingum á Filipseyjum sem húðstrýkja sjálfa sig og láta negla sig við krossa í sama tilgangi, með tilheyrandi hryllingsmyndum. Stöð 2 gerði þessum sjúku mönnum einnig skil. Ég er 28 ára gamall. Ég man ekki til þess að hafa upplifað Föstudaginn langa án þess að sjá fréttir frá Filipseyjum.

En hvorki Mogginn né RÚV sáu eitthvað fréttnæmt við 80 manna mótmælin á Austurvelli. Ég er svosem ekki hissa á fálæti Moggans en ég á ansi erfitt með að skilja hvað RÚV gengur til. En ég ætlaði nú svosem ekki að láta þetta fara í taugarnar á mér. Í kvöld var hins vegar hálfrar mínútu löng frétt um mótmæli í Þýskalandi. Mótmæli gegn helgidagalöggjöf sem ég gat ekki heyrt annað en að væri næstum því orðrétt jafn galin og sú íslenska.

Ef ég væri svo illa búinn að hafa bara aðgang að fréttatímum RÚV þá vissi ég semsagt að trúleysingjar og fylgismenn aðskilnaði ríkis og kirkju í Þýskalandi væru ósáttir við helgidagalöggjöf þar í landi og að þeir hefðu mótmælt á friðsamlegan og skemmtilegan hátt í gær. En að einhverjir hefðu gert nákvæmlega það sama hérna heima, það fengi ég ekki að vita.

Í dag gerðist ég glæpamaður!

22/04/2011

Í dag hjálpaði ég til við að fremja lögbrot. Við í Vantrú héldum árlega páskabingóið á Austurvelli í hádeginu, í trássi við hin fáránlegu lög um helgidagafrið.

Eins og Matti bendir á í dag þá snýst þessi viðburður ekki um bingó. Hann snýst ekki heldur um frídaga. Hann snýst um að í lögum á Íslandi í dag er freka og yfirgangur einnar lífsskoðunar leyfður. Af því að trúað kristið fólk heldur upp á þessa daga þá skulum við hin sætta okkur við skerta þjónustu og það að mega flest ekki vinna þó að við fegin vildum. Þetta óréttlæti þrífst í skjóli þess að lúthersk evangelíska trúfélagið er í raun ríkistrúfélag á Íslandi, í trássi við vilja um 75% þjóðarinnar miðað við kannanir. Það er löngu kominn tími til þess að þessir sérhagsmunir verði afnumdir.

Og gerið það nú fyrir mig, ekki spyrja mig hvort að ég vilji þá missa þessa frídaga. Ég treysti einfaldlega stéttarfélögunum til þess að sjá áfram um þau mál eins og þau hafa gert hingað til. Ekki byrja heldur á baulinu um að það sé nú svo notalegt að hafa svona daga öðru hverju þar sem allt er lokað og maður geti bara slappað af. Ég veit ekki með ykkur, en það truflar mína afslöppun aldrei neitt að opið sé í Hagkaup og á listasöfnum, hvað þá að eðlilegar strætisvagnasamgöngur geri mig sturlaðan úr stressi.

En allavega. Ég braut lög í dag. Hér eru myndir af því.