Archive for the ‘Pólítík’ Category

Gerir grein fyrir atkvæði sínu

30/06/2012

Ég fór og kaus áðan. Eins og mér var kennt að maður geri í lýðræðisríki þegar kosningar eru haldnar. Einhverjir gætu reyndar kverúlantast með það orðalag að ég hafi „kosið“ þar sem að kjörseðillinn minn breyttist ekkert frá því að ég fékk hann í hendurnar og þar til ég setti hann í kjörkassann. Ég skilaði auðu.

Ég gat ekki hugsað mér að kjósa Ólaf Ragnar. Það á sér aðallega tvær ástæður. Sú fyrri er sú að mér finnst hann eiginlega fyrst og fremst vera tækifærissinnaður framapotari. Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni þegar hann framkvæmir einhverja gjörninga, eins og t.d. að neita að skrifa undir lög, að það sem mest vægi hafi í ákvörðunum hans sé hvernig hann hagnist á þeim sjálfur.

Mér er alveg sama hvað hann er gamall. Ég bara sé ekki hvernig það kemur málinu við. Og mér er líka alveg sama hvað hann hefur setið lengi. Hann má sitja eins lengi og hann getur sannfært nógu marga kjósendur til þess að leyfa sér það.  Það að hann hafi verið „en helsta klappstýra útrásarinnar“ finnst mér líka veik rök gegn honum. Hann gerði voða lítið annað en að feta braut forvera sinna í þeim málum.

Ég kaus heldur ekki Þóru. Mér finnst hún mjög frambærileg kona og ég treysti henni alveg til góðra verka. Hún náði hins vegar engan vegin að sannfæra mig um að greiða sér atkvæði. Ef hún hefði gefið upp skýrari afstöðu í flestum málum en hún gerði þá hefði ég kannski freistast, mig grunar nefnilega að ég sé sammála henni í mörgum málum. Og það hjálpaði ekki til þegar hún sagði að hún teldi ekki rétt að aðskilja ríki og kirkju vegna þess að kirkjan skipti marga svo miklu máli. Aðskilnaðurinn er eitt af mínum hjartans málum og ég viðurkenni það fúslega að ég læt afstöðu fólks til hans hafa áhrif á það hvort að ég styð það til embætta. Kosningaherferð Þóru fannst mér einnig ekki nógu góð en þar er kannski ekki eingöngu við hana sjálfa að sakast.

Eins og með Ólaf Ragnar þá finnst mér aldur Þóru ekkert atriði. Hún er til dæmis miklu eldri en ég (JÚ VÍST!). Fjölskylda Þóru fannst mér frekar kostur en galli. Það yrði ekkert neikvætt við það að fá unga fjölskyldu á Bessastaði, þvert á móti eiginlega. Svavar virkar líka á mig sem maður sem getur vel hugsað um börnin sín og stutt konuna sína í mikilvægu embætti. Ég held líka að eðli forsetaembættisins geri það að verkum að það sé ekkert erfiðara með tilliti til fjölskyldulífs en t.d. hjá fjölskyldum þar sem foreldrar vinna reglulegan 8-9 tíma vinnudag.

Ég veit voða lítið um Hannes en mér finnst ekki trúverðugt að bjóða sig fram til forseta eftir að hafa búið erlendis í fleiri ár. Herdís náði engan vegin að sannfæra mig um að hún ætti heima á Bessastöðum og Andrea hefur sýnt svo furðulegan skilning á stjórnarskránni að mér dytti ekki í hug að kjósa hana, eins ágæt og hún annars er.

Ég var svolítið heitur fyrir Ara Trausta á tímabili. Mér fannst hann koma sínum skoðunum vel á framfæri og gat tekið undir margt af því sem hann hafði fram að færa.

En það að engin af frambjóðendunum hafi heillað mig skipti þó ekki mestu máli. Mér finnst þetta embætti nefnilega vera tímaskekkja og vil einfaldlega leggja það niður. Á meðan ég er þeirrar skoðunar þá finnst mér ekki rétt að kjósa einhvern einstakling til að gegna því. Ég veit ekki hvort að það megi kalla þetta prinsippafstöðu eða hvort að þetta sé bara minn eðlislægi kverúlantaháttur. Ég efast ekki um að þeir sem þekki mig hallist að því síðara.

En ég get ekki sleppt því að skrifa aðeins um kosningabaráttuna. Ef það sem hefur gengið á seinustu vikur er það sem koma skal ef að persónukjör verður almennt tekið upp í kosningum hér á landi þá er ég hér með orðin andstæðingur þess. Þegar stærsti hluti umræðunnar snýst um að það eigi ekki að kjósa þennan frambjóðanda af því að hann sé nú svona eða hinseginn og minnihlutinn um af hverju maður eigi að kjósa viðkomandi frambjóðanda þá finnst mér fólk verið komið á villigötur.

Auðvitað voru það fyrst og fremst stuðningsmenn frambjóðenda sem töluðu á þessum nótum (með nokkrum undantekningum) og það verður kannski seint hægt að koma í veg fyrir að ofurkappsamir stuðningsmenn fari fram með meiri leiðindum en gott má teljast en þeir sem að stýra framboðum geta þó haft áhrif. Ég tók aldrei eftir því að frambjóðendurnir sjálfir eða fólk í kosningastjórnum þeirra reyndi að fá fólk til að halda aftur af sér í blammeringum á andstæðinga.  Það hefði verið vel séð.

————————

En ég vaknaði semsagt snemma í morgun, klæddi mig í fín föt og burstaði í mér tennurnar. Það voru eftir á að hyggja mistök, ég hefði átt að byrja á því að tannbursta mig og koma þannig í veg fyrir að ég þyrfti að skipta um bol. En þegar því var lokið skundaði ég á kjörstað og inn í kjörklefa, horfði á kjörseðilinn minn í nokkrar sekúndur og skilaði honum svo ósnertum.

Og nú er bara að bíða eftir kosningavökunni. Áfram Auður!

Bugaðir sjómenn og ofurgáfaðir útgerðarmenn

07/06/2012

Til að byrja með langar mig að segja að ég held að sjávarútvegsfrumvörpin tvö sem liggja fyrir séu ekki af hinu góða. Ég held að þau hefði þurft að vinna miklu betur og trúi því ekki að allir þeir fagaðilar, sama hvort um er að ræða aðila úr sjávarútvegsgeiranum, hagfræði eða aðra, sem hafa gefið frumvörpunum neikvæðar umsagnir séu í einhverri herferð annað hvort gegn ríkisstjórninni eða fyrir útgerðarmenn.

En ég nenni eiginlega ekkert að bæta í það orðaflóð sem hefur fallið um þessi frumvörp heldur langar mig frekar að benda á tvo hluti sem fara í taugarnar á mér í umræðunni.

1) Sú hugmynd að sjómenn séu handbendi vinnuveitenda sinna. Það má vel vera að til séu sjómenn sem taka þátt í mótmælaaðgerðum útgerðarmanna með óbragð í munni. Ég held hins vegar að fólk eigi að fara varlega í því að fullyrða að þannig sé almennt farið og að sjómenn séu þar með svo buguð stétt að þeir geti ekki staðið í lappirnar gagnvart yfirmönnum sínum. Ég veit að þeir sjómenn sem ég þekki til eru óánægðir með frumvörpin og að þeir tóku þátt í mótmælunum í dag af fúsum og frjálsum vilja. Óánægjan virðist reyndar líka vera til staðar hjá því fiskvinnslufólki sem ég þekki.

2)  Hugmyndin að útgerðarmenn séu alveg einstaklega góðir í rekstri sinna fyrirtækja. Ég hef séð marga skoðanabræður mína um frumvörpin halda þessu fram. Og svo er það annað hvort sagt beint út eða þá gefið í skyn að útgerðarmenn séu hálfgerðir píslarvottar. Og ég get ekki tekið undir þetta.

Kvótakerfið sem slíkt hefur jú vissulega auðveldað mönnum hagræðingu í rekstri en það hvernig menn hafa svo nýtt sér arðinn sem hagræðingin hefur skapað eiginlega kæfir í fæðingu þá hugmynd að fyrirtækin sjálf séu vel rekin. Flest virðast þau vera veðsett upp í topp á sama tíma og eigendurnir hafa tekið úr þeim arð sem nýttur hefur verið í eitthvað allt annað en sjávarútveginn.

Af hverju er t.d. Ísfélagið í Vestmannaeyjum að velta því fyrir sér að selja eða leigja út nýju Heimaeyna, eitt glæsilegasta skip flotans, á sama tíma og eigandi Ísfélagsins getur séð af fleiri hundruð milljónum á ári í tap á rekstri fjölmiðils? Væri ekki nær að nýta þá fjármuni í að halda þessu glæsilega skipi í þjónustu fyrirtækisins?

Ef við höldum okkur bara við Vestmannaeyjar þá höfum við þar annað dæmi um útgerðarmann sem notaði arðinn úr sínu fyrirtæki til þess að kaupa sér bílaumboð og pítsustaði.

En eins og ég segi, ég held að þessi frumvörp séu ekki af hinu góða. En við skulum ekki láta eins og að það sé allt í himnalagi með hvernig sjávarútvegsfyrirtæki hafi verið rekin á seinustu árum. Ef um væri að ræða fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum þá hefði þeim einfaldlega fyrir löngu verið leyft að fara á hausinn.

Offramboð af framboðum

06/01/2012

Það er gaman að fylgjast með þjóðmálaumræðunni núna. Framboðið af framboðum virðist óþrjótandi. Eftir nokkuð miklar vangaveltur og umræður um ný framboð til alþingiskosninga, sem eru reyndar ekki fyrr en á næsta ári, gerði Ólafur Ragnar Grímsson áhugamönnum um þjóðmálin þann stóra greiða að opna á pælingar um það hverjir muni bjóða sig fram til forseta á þessu ári með því að gefa það eins skýrt til kynna og honum er mögulegt (s.s. ekki mjög skýrt) að hann muni ekki gefa kost á sér í embættið áfram. 

Það sem er svo skemmtilegt við þessar umræður allar er hvað allir þeir sem nefndir eru koma manni mikið á óvart. Ég meina, Guðmundur Steingríms, Frjálslyndi flokkurinn og Lilja Mósedóttir? Hverjum hefði dottið í hug að þar færi á ferðinni fólk sem hefði áhuga á frama í pólitík? Þorvaldur Gylfason, Davíð Oddsson og Jón Baldvin, eru það í alvörunni einstaklingar sem líklegt er að telji sig hafa eitthvað fram að færa þjóðinni til heilla sem forsetar lýðveldisins? Öðruvísi mér áður brá.

Það besta við þessar bollalegginar allar er að það er ennþá svo langt í kosningarnar. Rúmlega hálft ár í forsetakosningar og að öllum líkindum eitt og hálft ár í þingkosningar. Það er ekki nokkur möguleiki á því að maður geti fengið nóg af framboðspælingum. Eftirspurnin eftir þessu fólki er alltof mikil til þess.

Greinin birtist fyrst á Hamragrill.is

Úrsögn úr Sjálfstæðisflokknum

22/11/2011

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið breiðfylking hægri manna á Íslandi. Innan hans hafa rúmast misjafnar skoðanir á fólks á hægri væng stjórnmálanna. Styrkur flokksins hefur verið sá að stefna hans hefur verið mörkuð á þann hátt að jafnvel þó að ekki allir hægri menn hafi getað tekið undir allt í henni hefur ekki verið gengið fram á hátt sem gerir ákveðnum hópum það nánast útilokað að starfa með flokknum. Á undanförnum misserum hefur því miður orðið misbrestur á þessu.

Einn af þeim hópum sem alltaf hefur verið áberandi í starfi Sjálfstæðisflokksins eru þeir sem kalla má kristilega íhaldsmenn. Þeir hafa jafnan barist fyrir því að flokkurinn verji kristni og Þjóðkirkjuna. Það hefur gengið misvel. Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki markað sér opinbera stefnu á landsfundi um aðskilnað ríkis og kirkju sem má e.t.v. telja eðlilegt í ljósi þess að skiptar skoðanir eru um það málefni innan flokksins og ólíklegt að hægt væri að ná sátt um afstöðu í aðra hvora áttina. Flokkurinn endurspeglar þannig ekki afstöðu þjóðarinnar í málinu þar sem meirihluti hefur verið fyrir aðskilnaði í könnunum Gallup í hartnær tvo áratugi.

Undanfarið hefur mörgum fundist Sjálfstæðisflokkurinn hafa tekið skarpa beygju í átt til kristilegrar íhaldssemi. Það sást vel í umræðum um nýlegar reglur Reykjarvíkurborgar um samstarf lífsskoðunar- og trúfélaga við menntastofnanir. Þar beittu fulltrúar flokksins í borgarstjórn og nefndum borgarinnar sér gegn reglunum og endurómuðu í þeirri baráttu spuna ættaðan frá Biskupsstofu sem ekki var alltaf vandaður eða réttur.

Nú hefur svo 40. landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkt að standa vörð um tengsl Þjóðkirkjunnar við ríkið og í raun er gengið lengra þar sem uppihald kirkjunnar og annara trúfélaga með framlögum úr ríkissjóði, sem ranglega eru kölluð félagsgjöld, eiga nú að vera tryggð betur en verið hefur gert skv. fundinum.

Þessar samþykktir má finna í ályktun landsfundar um innanríkismál. Í stjórnmálaályktun landsfundar stendur svo eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi.

„Kristin gildi“ er líklega einhver þvældasta klisja trúmálaumræðunnar á Íslandi. Þetta er merkingarlaus frasi því að hann er bæði notaður til þess að lýsa náungakærleika og svo til þess að festa í sessi fordóma og óþol, t.d. gagnvart samkynhneigðum. Flokkurinn á svo að hlúa sérstaklega að „kirkju“, sem augljóslega vísar til ríkisstofnunarinnar Þjóðkirkju.

Þeim sem aðhyllast minni ríkisafskipti af málefnum einstaklinga, hvað þá minni fjáraustur ríkisins til fyrirbæra sem hafa alla burði til að reka sig sjálf og engin sjáanleg þörf er fyrir að rekin séu með skattpeningum almennings, hlýtur að blöskra.

Framganga formanns flokksins, Bjarna Benediktssonar, undanfarna mánuði hefur einnig vakið athygli. Í ræðustóli alþingis við seinustu eldhúsdagsumræður vakti hann athygli á því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði íhugað að segja sig úr Þjóðkirkjunni og fann því allt til foráttu. Af hverju gróf Bjarni upp rúmlega ársgömul ummæli Jóhönnu á þeim vettvangi? Og af hverju telur Bjarni að trúfélagaskráning einstaklinga sé yfirhöfuð eitthvað sem honum kemur við? Það ríkir trúfrelsi í landinu, það nær líka til ráðherra í ríkisstjórn.

Trúfrelsi varð Bjarna svo tilefni til furðulegra ummæla í setningarræðu sinni á nýliðnum landsfundi. Þar sagði hann:

Trúfrelsið er misskilið. Sumir virðast halda að það snúist um að enginn megi hafa neina trú – og alveg sérstaklega ekki kristna.

Hér bergmálar Bjarni fórnarlambskjökur forvígismanna ríkiskirkjunnar, einnar elstu og sterkustu valdastofnunar ríkisins. Staðreyndin er hins vegar sú að engin hefur lýst skoðunum sem gefa tilefni til ummæla á þessum nótum.

Þegar allt er tekið saman er augljóst að flokkurinn er að færa sig enn frekar inn á lendur kristilegrar íhaldssemi. Þær skoðanir sem settar hafa verið fram, bæði af formanni og kjörnum fulltrúum, rýma illa við hugmyndir um að ríkið eigi að skipta sér sem minnst af persónulegum málefnum einstaklinga. Þær passa líka illa við hugmyndir um að skattfé almennings fari ekki í uppihald á stofnunum sem vel geta rekið sig sjálfar.

Ég get ekki unnið stefnu hylli sem innifelur það að ein lífsskoðun sé réttari og að þeir sem hana aðhyllast skuli hafa meiri rétt og meira vægi en aðrir. Ég get ekki stutt stefnu sem felur í sér að ríkið úthluti trúfélögum (athugið að hvergi í ályktunum landsfundar er minnst á lífsskoðunarfélög í þessu samhengi) fjárframlögum úr ríkissjóði og styðji auk þess sérstaklega eitt trúfélag umfram önnur.

Þess vegna hef ég sagt mig úr Sjálfstæðisflokknum.

Það kemur þó fleira til en varðstaða flokksins um ríksivædd trúarbrögð. Mér hefur ekki líkað við vinnubrögð núverandi forystu flokksins, mér líkar ekki við dálæti fjölmargra flokksfélaga á ákveðnum fyrrverandi formanni sem einsamall jarðaði ágæta skýrslu endurreisnarnefndar á landsfundi 2009 með hótfyndni og leiðindum, ég er kominn með ógeð á ungliðapólitíkinni í flokknum og síðast en ekki síst hef ég fengið talsvert óþol á pólitík almennt.

Kannski finnst einhverjum flokksmeðlimum þetta ekki réttlátar ástæður. En á meðan ég er á þessum stað get ég ekki verið í Sjálfstæðisflokknum.  Í gegnum flokksstarfið hef ég eignast marga góða vini og félaga og á árunum sem ég var virkastur var yfirleitt ofboðslega gaman að starfa í flokknum. Þessum vinum og félögum óska ég alls góðs. Ég verð auk þess áfram frjálslyndur í stjórnmálaskoðunum og flokka sjálfan mig hægra megin við miðju.

En nú skilja leiðir.

Hommarnir, lesbíurnar og styrktu trúfélögin

10/09/2011

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að veita Kristskirkjunni ekki fyrirhugaðan byggingarstyrk vegna skoðana forstöðumanns kirkjunnar á hommum og lesbíum eins og lesa má hér. Mér finnst tvennt athugavert við þessa ákvörðun borgarinnar:

1. Af hverju er Kristskirkjunni refsað sérstaklega fyrir þá skoðun að samkynhneigð sé af hinu slæma og að samkynhneigðir ættu ekki að njóta sömu réttinda og aðrir? Er þetta ekki nokkurn vegin afstaða meira og minna allra trúfélaga á Íslandi? Er t.d. einhver búinn að gleyma áralangri baráttu ríkiskirkjunnar gegn réttindum samkynhneigðra? Lýsa eftirfarandi orð Karls Sigurbjörnssonar biskups um hjónabönd samkynhneigðra skoðunum sem eru annars eðlis en þær sem Friðrik Schram hefur lýst?

Ég held að hjónabandið eigi það inni hjá okkur að við allavegana köstum því ekki á sorphauginn alveg án þess að hugsa okkar gang. #

Það væri líklega hægt að fylla marga pistla með tilvitnunum og gömlum fréttum þar sem fordómar gagnvart hommum og lesbíum hafa komið í ljós í íslenskum trúfélögum. Mér finnst alveg vanta rökstuðning fyrir því að það sem forstöðumaður Kristskirkjunnar boðar sé verra en það sem gengur og gerist í trúarbransanum á Íslandi.

2. Eins röng, heimskuleg, fordómafull og asnaleg mér finnst skoðun Friðriks á samkynhneigðum vera þá á hann rétt á henni. Það er ekki bannað að hafa rangar, heimskulegar fordómafullar og asnalegar skoðanir, sem betur fer.

En hið opinbera veitir trúfélögum styrki. Í mín eyru hljómar það einkennilega að hið opinbera taki upp á því að neita trúfélögum sem hafa idjótískar skoðanir, skoðanir sem eru nota bene að miklu leiti dregnar af trúnni sem félagið er myndað utan um, um styrki úr opinberum sjóðum. Ef trúfélög eiga að fá opinbera styrki þá finnst mér eiginlega ekki hægt að mismuna þeim eftir trúarskoðunum, sama hversu slæmar þær skoðanir eru. Svo lengi sem ekki er um að ræða eitthvað ólöglegt þ.e.

En auðvitað finnst mér fyrst og fremst að hið opinbera eigi bara ekki að styrkja trúfélög yfirhöfuð.

Pólitíkusar ögra leikskólakennurum

17/08/2011

Þetta bréf var ekkert annað en ögrun frá pólítíkusunum í Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Pólitíkusana í stjórninni má sjá í góðri bloggfærslu Harðar Svavarssonar.

Fyrir það fyrsta þá er það algjör sturlun að ætla sér að halda starfsemi gangandi í leikskólum á meðan félagar í FL eru í verkfalli. Starfsfólki inni á deildum myndi snarfækka. Mismikið eftir leikskólum auðvitað en það er t.d. augljóst að á Akureyri þar sem hlutfall félaga leikskólakennara er á flestum leikskólum yfir 80% mun ekki vera hægt að taka á móti mörgum börnum. Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið almennt ekki jafn hátt og á Akureyri en það mun samt sem áður engan vegin verða hægt að taka á móti nema hluta af börnum hvers leikskóla á hverjum degi. Fyrir svo utan þá staðreynd að ekki verður heldur hægt að halda áfram að aðlaga þann risastóra hóp af börnum sem nú eru að fara að byrja í leikskóla. Árgangurinn sem nú er að byrja í leikskóla, 2010 börnin, er einn sá stærsti í sögu þjóðarinnar.

Ef SÍS fengi sitt fram yrðu þeir starfsmenn inni á deildum leikskóla sem ekki eru í FL (fyrst og fremst leiðbeinendur en líka t.d. aðstoðarleikskólastjórar) undir gríðarlegu álagi. Upp til hópa er þarna um að ræða hæft og gott leikskólafólk en þær aðstæður sem þeim yrði boðið upp á væru slítandi og erfiðar. Ekki síst af því að með þessu útspili sínu er SÍS í raun að stilla þeim upp gagnvart leikskólakennurum, fólki sem vinnur við hlið þeirra á hverjum degi. Þeir eru orðnir að peðum í refskák SÍS. Þetta er lúaleg taktík.

En auðvitað áttum við leikskólakennarar að búast við þessu. Það bendir allt til þess að af verkfalli verði og nú ætla pólitíkusarnir í SÍS að reyna að snúa almenningsálitinu gegn okkur. Það gera þeir með því að reyna að láta líta út fyrir að löglegt sé að samstarfsfólk okkar sem ekki er í FL gangi í okkar störf en að við viljum koma í veg fyrir þetta. Þannig reyna þeir að gera okkur ábyrg fyrir vandræðunum sem verkfallið mun skapa fyrir fjölskyldurnar. Það gera þeir með því að segja kröfur okkar óraunhæfar og að við séum frek, þó að við séum í raun bara að biðja um leiðréttingu vegna þess að öfugt við viðmiðunarstéttir þá frusum við inni með samning sem rann út 2008. Það gera þeir með því að reyna að rugla umræðuna með leikfimisæfingum með tölur.

Við getum búist við fleiri ögrunum. Við getum búist við ústpilum sem eiga að reita okkur til reiði og fá okkur til að gera eða segja eitthvað sem gæti snúið almenningsálitinu gegn okkur. Við getum búist við því að þeir mæti á fundi með báðar hendur tómar en fullyrði svo að það sé ekki hægt að tala við okkur vegna óbilgirni okkar.  Við getum búist við því að þeir reyni að svæla okkur út með því að láta verkfallið dragast á langinn. Og við getum búist við því að þeir fari að biðla til löggjafans um að setja á okkur lög þegar líður á verkfall.

En munum þetta: þeir eru pólitíkusar. Þeir munu aldrei þurfa að bera neina ábyrgð á sinni taktík. Við þurfum að standa á okkar gagnvart samstarfsfólki okkar, foreldrum og börnum. Við skulum halda okkar einföldu og eðlilegu kröfum á lofti og svara því sem svara þarf yfirvegað og með rökum. Leyfum pólitíkusunum að spinna á rokkunum sínum.

Anders Breivik og aðalatriði kaldastríðshratsins

24/07/2011

Það tók berserki íslenskrar stjórnmálaumræðu ekki langan tíma að átta sig á mikilvægasta atriðinu varðandi ásetning og ástæður Anders Breivik (ABB) fyrir voðaverkum sínum á föstudaginn. Nú skal rifist um hvort að maðurinn sé hægra megin í pólitík, eins og hann sjálfur heldur fram, eða vinstra megin. Á bloggum, á Facebook og í rotþróm ræða menn nú þetta lykilatriði.

Aðal röksemdarfærsla þeirra sem mótmæla því að ABB hafi verið hægrimaður virðist vera að skilgreina nasisma og nýnasisma sem vinstri stefnur. Ég nenni þeirri umræðu ekki, hún er jafn leiðinleg og hún er tilgangslaus í þessu tilfelli því að ABB var einfaldlega ekki nasisti eða nýnasisti. Ég hef hvergi séð fjallað um hvaða skoðanir hann hafði í efnahagsmálum en sá málstaður sem hann vildi koma á framfæri með voðaverkunum er andstaða við fjölmenningarstefnuna sem hann telur að sé að spilla hreinni menningu og samfélögum hér á vesturlöndum með sífelldum innflutning á múslimum. Grunninn að þessari fjölmenningarstefnu taldi ABB sig finna í marxisma/sósíalisma sem gripið hefði verið til til að hefta útbreiðslu fasisma.

Hvar á hinu pólitíska litrófi hefur nú fólk með svipaðar skoðanir, einhvers konar menningarlega íhaldssemi, verið staðsett hingað til? Er það ekki frekar til hægri? Og erum við ekki vön því að þeir sem að fyrirlíta vinstri stefnu séu frekar flokkaðir til hægri í pólitík?

Ég átta mig ekki almennilega á því af hverju hægri menn, og svo að það sé nú á hreinu þá er ég sjálfur hægra megin við miðju í pólítik, hér á landi bregðast sumir svona illa við því að bent sé á þá staðreynd að ABB var hægri maður í pólitík. Segir það eitthvað um mig og mínar skoðanir að þær séu taldar vera sömu megin við einhvern ímyndaðan miðpunkt og skoðanir þessa hryðjuverkamanns? Jafnvel þó að þær gætu ekki verið ólíkari? Nei, auðvitað ekki. Og þess vegna gæti mér ekki verið meira sama þó að mogginn, MOGGINN FOR KRÆING ÁT LÁD!, bendi á að þarna hafi verið hægrimaður á ferðinni. Auðvitað eru til öfgaskoðanir á mínum væng stjórnmálanna, er einhver svo barnalegur að halda að svo sé ekki?

En það er samt eitthvað svo ótrúlega hallærislegt við þessa umræðu, og þá meina ég frá báðum hliðum. Í stað þess að einbeita sér að hatrinu sem vellur út úr manifestói ABB, sem að aðgerðir hans snerust um að koma á framfæri, og velta því fyrir sér hvernig hægt sé að tækla þessa öfga sem og aðra er verið að reyna að færa til merkimiða.

Á meðan að næsta sprengja telur niður, sprengja sem gæti jafnvel sprungið á Íslandi, standa gamlir (og ungir) útverðir kalda stríðsins í hring og rífast um hvort að miðinn á sprengjunni sé blár eða rauður.

Stjórnlagaráðsfulltrúar, að gefnu tilefni

15/07/2011

Svo virðist sem að „lending“ Stjórnlagaráðs hvað varðar ákvæði um ríkiskirkju sé sú að tryggja stöðu ríkiskirkjunnar áfram. Nú er ákvæðið komið með sinn eigin kafla sem heitir „Þjóðkirkjan“ og er hann í þeim hluta tillagna Stjórnlagaráðs sem fjallar um undirstöður samfélagsins. Ég er eiginlega að hugsa um að endurtaka þetta svo að það fari ekki á milli mála hver millileiðin á milli þess að hafa ríkiskirkju í stjórnarskrá og að aðskilja ríki og kirkju er í augum stjórnlagaráðsfulltrúa: Í kafla sem fjallar um undirstöður þjóðfélagsuppbyggingarinnar hér á landi er sérstakur kafli sem heitir „Þjóðkirkjan“.

Í kaflanum segir að alþingi eigi að ákveða, og nú ætla ég að feitletra, kirkjuskipan, og nú breyta um lit til áherslu, ríkisins!

Ennfremur að allt sem alþingi ákveði í þessum málum verði að fara í þjóðaratkvæði, sem er engin breyting frá því sem nú er.

Ég ætla að vitna í orð nokkurra valinkunnra einstaklinga sem féllu merkilegt nokk á sérstakri síðu ríkiskirkjunnar um stjórnlagaþing sem nú virðist hafa verið tekin niður af einhverjum ástæðum:

Já, ég tel þörf á að breyta 62.grein stjórnarskrárinnar. Ég vil tryggja trúfrelsi á Íslandi þannig að allir einstaklingar hafi jafna möguleika á iðka þá trú sem þeir kjósa.
Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?

Ég vil afnema það samband sem í dag ríkir á milli ríkis og þjóðkirkjunnar.

-Ástrós Gunnlaugsdóttir

Að minni hyggju er ekki aðeins verið að tala um að gera breytingar á stjórnarskrá heldur að semja og setja nýja. Í samræmi við það falla allar greinar hinnar gömlu úr gildi og verða tæpast endurskrifaðar óbreyttar í hina nýju. Trúfrelsi finnst mér svo sjálfsagt að það hljóti að heyra undir almenna frelsisskilmála. Því tel ég að fella beri greinina burt án þess að nokkur ákvæði komi í hennar stað.

-Erlingur Sigurðarson

Ég tek það einfaldlega tímaskekkju að ein kirkjudeild njóti sérstaks stuðnings ríkisins. Meðan svo er get ég ekki séð að fullt trúfrelsi ríki í landinu, þar eð sú kirkjudeild mun ævinlega hafa mikið forskot á aðrar kirkjudeildir og önnur trúfélög.

-Illugi  Jökulsson

Ég hygg að væru menn að skrifa stjórnarskrána frá grunni í þá væri
afar ólíklegt að lagt yrði til að ein trúarskoðun eða eitt trúfélag
yrði tilgreint sérstaklega með hætti sem nú er gert. Mér fyndist því
eðlilegt að þessi umrædda grein myndi víkja úr stjórnarskráni. Í því
felst ekki árás á þá trúarskoðun eða það trúfélag heldur, heldur
byggist þetta á þeirri skoðun að ríkið eigi að vera hlutlaust þegar
kemur að trúmálum.

-Pawel Bartosek

Auk ofangreindra lýstu Freyja Haraldsdóttir, Ómar Ragnarsson, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson* því yfir að þau teldu að aðskilja ætti ríki og kirkju. Glöggir sjá að hér er um meirihluta að ræða innan stjórnlagaráðs.

Það tekst kannski einhverjum að það sem hér er vitnað í að ofan, auk almennra yfirlýsinga um stuðning við aðskilnað ríki og kirkju, ríma við „lendingu“ stjórnlagaráðs. Ég get það ekki. Mér finnst niðurstaðan lykta af því að látið hafi verið undan ríkiskirkjusinnum til að halda einhvern frið. Í leiðinni var vilji meirihluta þjóðarinnar, meirihluta stjórnlagaráðs og tveggja þjóðfunda hundsaður. Það eru mikil vonbrigði.

*Túlkun Arnar Bárðar á þessu er þó frekar skrýtin. Hann telur aðalatriðið að ríkið hætti að skipta sér af innri málum kirkjunnar, að hún stjórni sér sjálf, og að það hafi nú þegar náðst í gegn. Hann vill áfram að ríkið fjármagni kirkjuna.

Sjálfskaparvíti borgarinnar

05/07/2011

Í Mogga í dag er sagt frá því að leikskólakennurum fari nú fækkandi í leikskólum Reykjavíkurborgar. Af hverju ætli það sé nú?

Gæti það verið af því að borgin ákvað að hunsa óánægjuraddirnar sem upp komu vegna illa ígrundaðra niðurskurðaráætlana í leik- og grunnskólum? Að einhverjum hafi blöskrað að faglegi grundvöllurinn hafi verið ein rannsókn, framkvæmd af formanni starfshópsins sem lagði til niðurskurðinn, sem tók ekki til sambærilegra ytri aðstæðna? Að það hafi hleypt illu blóði í fólk að málið var ekki betur ígrundað en það að ekki lá fyrir hvað hver sameining myndi spara? Að það eina sem lagt hafi verið til grundvallar sameiningu skólastofnanna hafi verið landakortið en ekki hvort að þær hafi verið hugmyndafræðilega líkar?

En að þetta hafi verið gert á sama tíma og leikskólakennarar standa í kjaraviðræðum eftir að hafa verið samningslausir frá 2008? Gæti það hafa haft einhver áhrif á langlundargeðið?

Þegar ákvarðanir eru teknar verður að vega og meta hverjar afleiðingarnar geta orðið. Borginni var gert ljóst hverjar afleiðingar þessara aðgerða gætu orðið. Fórnarkostnaðurinn var augljós þeim sem vildu á annað borð vita af honum.

Sú staða sem blasir við borgaryfirvöldum í dag er algjörlega þeim sjálfum að þakka. Verði þeim að góðu.

Kristin þjóð og hvít

24/06/2011

Dögg Harðardóttir heldur áfram að gleðja. Í umræðum í stjórnlagaráði í dag (Dögg byrjar að tala á ca. 163 mínútu) fór hún á umtalsverðum kostum. Hún benti t.d. á að múslimar séu ekki sérstaklega umburðarlyndir, af því að þeir mega ekki breyta um trú. Af því tilefni langar mig að rifja upp fyrsta boðorð kristinna manna:

Ég er Drottin Guð þinn, þú skalt ekki aðra Guði hafa.

Afleiðingar þess að fara ekki eftir þessu boðorði eru vel þekktar og skjalfestar.

En þetta var nú bara svona smá upphitun hjá Dögg. Hún nefnilega veltir því fyrir sér að þar sem að Arnfríður Guðmundsdóttir stjórnlagaráðsfulltrúi hafi sagt að 21. öldin verði öld endurkomu trúarinnar, og Dögg tekur að sjálfsögðu fram að Arnfríður vitni oft í rannsóknir (því að eins og fram hefur komið þá er Dögg mjög hrifin af rannsóknum, sérstaklega þegar hún þarf ekki að vitna í þær), þá finnist henni nú alveg tilefni til þess að setja inn ákvæði um að hér búi kristin þjóð og að hún myndi styðja slíkt ákvæði.

Ég ætla að endurtaka þetta svo að ekkert fari á milli mála. Dögg Harðardóttir vill ákvæði inn í stjórnarskrá um að hér búi kristin þjóð. Þetta er ekki djók. Hún glotti ekki á meðan hún sagði þetta. Skoðið þetta bara á upptökunni.

Hvaða merkingu hefur það að setja svona í stjórnarskrá? Tvennt kemur til greina. a) Þetta er merkingarlaust hjal. Einhver yfirlýsing sem þýðir ekki neitt. Ef það er raunin þá á þetta ekki heima í stjórnarskránni frekar en annað tilgangslaust þvaður sem hefur enga merkingu. b) Þetta er tekið fram til þess að ekki fari á milli mála að réttindi þeirra sem tilheyra „þjóðinni“, því að þeir sem ekki hafa eiginleikann sem þjóðin er sögð hafa geta jú tæplega tilheyrt henni, eru meiri en annara. Væri svona ákvæði í núverandi stjórnarskrá yrðu allar þreifingar í ætt við þær sem Mannréttindaráð Reykjavíkur stendur í núna kæfðar í fæðingu með vísan í stjórnarskrá. Svo nefnt sé dæmi sem stendur nærri bæði mér og Dögg.

——————-

En ég er auðvitað bara að grínast. Ég er ekki bara sammála Dögg heldur finnst mér hún ekki ganga nógu langt. Mér finnst algjört lágmark að tekið sé fram að þjóðin sem býr hér sé líka hvít. Því allir „alvöru“ Íslendingar eru hvítir. Það á svo ekki að þurfa að taka það fram að Íslendingar eru líka gagnkynhneigð þjóð. Sem borðar fisk.