Archive for the ‘Pirringur’ Category

Bugaðir sjómenn og ofurgáfaðir útgerðarmenn

07/06/2012

Til að byrja með langar mig að segja að ég held að sjávarútvegsfrumvörpin tvö sem liggja fyrir séu ekki af hinu góða. Ég held að þau hefði þurft að vinna miklu betur og trúi því ekki að allir þeir fagaðilar, sama hvort um er að ræða aðila úr sjávarútvegsgeiranum, hagfræði eða aðra, sem hafa gefið frumvörpunum neikvæðar umsagnir séu í einhverri herferð annað hvort gegn ríkisstjórninni eða fyrir útgerðarmenn.

En ég nenni eiginlega ekkert að bæta í það orðaflóð sem hefur fallið um þessi frumvörp heldur langar mig frekar að benda á tvo hluti sem fara í taugarnar á mér í umræðunni.

1) Sú hugmynd að sjómenn séu handbendi vinnuveitenda sinna. Það má vel vera að til séu sjómenn sem taka þátt í mótmælaaðgerðum útgerðarmanna með óbragð í munni. Ég held hins vegar að fólk eigi að fara varlega í því að fullyrða að þannig sé almennt farið og að sjómenn séu þar með svo buguð stétt að þeir geti ekki staðið í lappirnar gagnvart yfirmönnum sínum. Ég veit að þeir sjómenn sem ég þekki til eru óánægðir með frumvörpin og að þeir tóku þátt í mótmælunum í dag af fúsum og frjálsum vilja. Óánægjan virðist reyndar líka vera til staðar hjá því fiskvinnslufólki sem ég þekki.

2)  Hugmyndin að útgerðarmenn séu alveg einstaklega góðir í rekstri sinna fyrirtækja. Ég hef séð marga skoðanabræður mína um frumvörpin halda þessu fram. Og svo er það annað hvort sagt beint út eða þá gefið í skyn að útgerðarmenn séu hálfgerðir píslarvottar. Og ég get ekki tekið undir þetta.

Kvótakerfið sem slíkt hefur jú vissulega auðveldað mönnum hagræðingu í rekstri en það hvernig menn hafa svo nýtt sér arðinn sem hagræðingin hefur skapað eiginlega kæfir í fæðingu þá hugmynd að fyrirtækin sjálf séu vel rekin. Flest virðast þau vera veðsett upp í topp á sama tíma og eigendurnir hafa tekið úr þeim arð sem nýttur hefur verið í eitthvað allt annað en sjávarútveginn.

Af hverju er t.d. Ísfélagið í Vestmannaeyjum að velta því fyrir sér að selja eða leigja út nýju Heimaeyna, eitt glæsilegasta skip flotans, á sama tíma og eigandi Ísfélagsins getur séð af fleiri hundruð milljónum á ári í tap á rekstri fjölmiðils? Væri ekki nær að nýta þá fjármuni í að halda þessu glæsilega skipi í þjónustu fyrirtækisins?

Ef við höldum okkur bara við Vestmannaeyjar þá höfum við þar annað dæmi um útgerðarmann sem notaði arðinn úr sínu fyrirtæki til þess að kaupa sér bílaumboð og pítsustaði.

En eins og ég segi, ég held að þessi frumvörp séu ekki af hinu góða. En við skulum ekki láta eins og að það sé allt í himnalagi með hvernig sjávarútvegsfyrirtæki hafi verið rekin á seinustu árum. Ef um væri að ræða fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum þá hefði þeim einfaldlega fyrir löngu verið leyft að fara á hausinn.

Eineltisvæl þeirra sem valdið hafa

10/11/2011

Einelti er alvarlegt vandamál. Það tekur mikið á fólk að lenda í einelti og fólk getur verið lengi að vinna sig úr því. Það kemur fyrir að þeir sem lenda í einelti nái sér aldrei eftir þá reynslu.

Umræðan um einelti á Íslandi er því miður meingölluð. Á öðrum pólnum höfum við þá sem að vilja leggja mesta áherslu á þau slæmu áhrif sem einelti hefur. Umfjöllun DV um einelti síðustu vikur og mánuði hefur svolítið litast af þessu. Flökkustatus á Facebook þar sem fórnarlömbum eineltis er líkt við krumpaðan og „varanlega skemmdan“  pappír er af þessum rótum. Ég efast um að það hjálpi þeim sem annað hvort glíma við einelti eða afleiðingar þess að heyra og fá þann dóm að þeir séu varanlega skemmdir.

Boðskapurinn og hugsunin sem liggur þarna á bakvið er þó í grunninn góður, þó að hann smitist af tilfinningaklámsblæti. En svo er það hinn póllinn í gölluðu umræðunni. Það eru þeir sem gera lítið úr einelti.

Landsstjórn Landssambands Framsóknarkvenna sakar Egil Helgason um einelti af því að hann birti myndband þar sem þingkonu flokksins, Vigdísi Hauksdóttur, verður fótaskortur á tungunni. Það er svo ekki langt síðan Álfheiður Ingadóttir notaði þetta orð yfir það þegar Björn Bjarnason ásakaði hana og Atla Gíslason um að veitast að lögreglunni.

Svona væl gengisfellir orðið einelti alveg rosalega. Það sem þarna var á ferðinni er ekkert líkt því sem gerist þegar um raunverulegt einelti er að ræða.

Það virðist vera orðið viðkvæðið að allir sem telja á sér brotið séu fórnarlömb eineltis. Sjá t.d. þetta brot úr aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag, höfundur er Guðbjörg Snót Jónsdóttir guðfræðingur:

Þær hreyfingar sem kalla sig Vantrú og Siðmennt hafa lagt þjóðkirkjuna í einelti í langan tíma og varla linnt látum í þeim efnum og kórónuðu það með ályktun fulltrúa þeirra og Margrétar Sverrisdóttur um samskipti kirkjunnar og skólanna nýlega.

Þjóðkirkjan á Íslandi er lögð í einelti af tveimur félögum sem eru fámennari til samans en flestar sóknir landsins. Finnst einhverjum þetta vera boðlegur málflutningur? Er virkilega ekki hægt að sýna þolendum eineltis þá virðingu að nota einhver önnur orð en einelti þegar vælt er undan því að maður sé sviptur forréttindum?

Seinna í greininni er þetta að finna (þarna er vísað til Margrétar Sverrisdóttur):

Henni veitti greinilega ekki af að læra um einelti og hvað það er, eins og hún hefur hugsað og talað í þessum efnum.

Einhverjum veitti ekki af því að fræðast um einelti. En ég held að við Guðbjörg séum ekki sammála um hver það er.

Jón Valur Jensson brjálast yfir tilvonandi jafnræði lífsskoðana

20/09/2011

Jón Valur Jensson er brjálaður. Og af hverju er JVJ brjálaður? Jú, af því að nú á að fara að veita enn einum hópnum sem er öðruvísi en hann er sjálfur sömu réttindi og hann hefur. Þetta virðist fara illa í JVJ. Ég ætla aðeins að fara yfir það sem þessi mikli mannréttindavinur skrifar um þær fáránlegur tillögur sem munu von bráðar koma fram á þingi um að lífsskoðunarfélög sem ekki byggja á trú fái sömu réttindi og trúfélög.

Þau fyrrnefndu eru með hraðsuðunámskeið fyrir „fermingarbörn“ sín, en nánast ekkert samfélag um mannrækt né siðrækt eftir það.

Hér talar JVJ í fleirtölu en staðreyndin er að svona breyting myndi bara hafa áhrif á eitt félag á Íslandi, Siðmennt. Og hefur mannvinurinn mikli rétt fyrir sér? Öhh, nei. Siðmennt býður upp á giftingar, útfarir, nafngjafarathafnir auk borgaralegu fermingarinnarsem JVJ kallar af einhverjum ástæðum hraðsuðunámskeið. Einhvern tíma hefði það þótt furðuleg nafngift á námskeiði sem inniheldur tólf 80 mínútna kennslustundir.

Auk þessa heldur Siðmennt fundi og námskeið um málefni sem tengjast húmanisma og jafnrétti lífsskoðana ásamt því að félagið kemur öðru hverju að því að flytja inn erlenda fyrirlesara. Þetta er engan vegin tæmandi upptalning á starfi Siðmenntar, en hún ætti að sýna fram á að fordómar JVJ eru, tjahh, bara fordómar.

Nefnd lífsskoðunarfélög „miða starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt,“ en naumast er nokkur samfella né samræmi meðal trúlausra um grunn sinna siðferðisgilda, enda fjöldamargt (og innbyrðis ósamstætt) til í vopnabúri hinna ólíkustu heimspekinga og siðfræðinga veraldlegra, sem trúausir geta leitað til, en seint orðið sammála um. Eru þar sumir efahyggjumenn, aðrir dogmatískir í sinni afneitun og enn aðrir dogmatískir um óvissuhyggjuna.

Þetta á auðvitað ekki við um trúfélögin sem njóta stuðnings og styrkja ríkisins í dag. Það er mikil samfella og samræmi á milli kaþólskra, múslima, ásatrúarmanna og svo aðventista eins og ég er viss um að JVJ samþykkir fúslega. Trúarleiðtogar og guðspjallamenn eru meira og minna allir þeir sömu hjá trúarhópum heimsins og litlar deilur um siðferðisgildi og kennisetningar.

Markmið þeirra breytinga, sem ráðherrann hyggur á, mun vera „að tryggja jafnræði“, en þetta mun trúlega leiða til þess, að sjóðir safnast upp hjá Siðmennt og jafnvel herskáum trúleysingjum.

Já, það væri nú auðvitað hræðilegt ef einhverjir sjóðir söfnuðust upp hjá Siðmennt og lítið jafnræði í því.

En JVJ er eiginlega alveg örugglega að vísa til Vantrúar þegar hann talar um „herskáa“ trúleysingja. Látum vera  að þegar talað er um herskáa trúmenn þá er í mörgum tilfellum átt við einstaklinga og hópa sem beita ofbeldi og jafnvel hryðjuverkjum en að herskáir trúleysingjar eru fólk sem gengur svo langt að hreinlega skrifa greinar á internetið og í blöðin!

En Vantrú er ekki lífsskoðunarfélag í anda Siðmenntar. Félagið hefur aldrei sóst eftir samskonar skilgreiningu og mun ekki gera það nema að gerðar verði grundvallarbreytingar á eðli og stefnu félagsins. Vantrú er á móti því að ríkið styrki trúar- og lífsskoðanir. Fólk sem vill tilheyra trú- og lífsskoðunarfélögum á einfaldlega að standa undir kostnaði þeirra sjálft.

Þannig að hógværi trúmaðurinn Jón Valur Jensson þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Vantrú fái hreinlega peninga frá ríkinu eins og hvert annað trúfélag.

Eins og önnur lagafrumvörp heimshyggjunnar, sem gengið hafa gegn kristnum sið í landinu, mun þetta frumvarp eflaust fá forgangsmeðferð á þingi vinstri flokkanna…

Gengið hafa gegn kristnum sið í landinu! Það er aldeilis. Það að ásatrúarfólk, múslimar, hindúar, gyðingar, búddistar og fólk af hvaða öðrum trúarbrögðum sem eiga sér sögu geti (og hafi í mörgum tilfellum) stofnað trúfélög og fengið sóknargjöld og stuðning og vernd hins opinbera er í fínu lagi. En að það sama gildi um Siðmennt er hreinlega aðför að kristnum sið í landinu!

Auðvitað er þetta fáránlegur málflutningur manns sem getur ekki samþykkt það að heimurinn hagi sér ekki eftir grillunum sem lifa í höfðinu á sér. Og sjálfsagt er algjör óþarfi að benda á hversu veikum fótum svona áróður stendur. En stundum þarf maður bara að pústa aðeins, þegar fordómar illa áttaðs fólks menga andrúmsloftið.

Greinin birtist fyrst á Vantrú.

Þingmaður í kjarabaráttu

26/05/2011

Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins á það sameiginlegt með t.d. leikskólakennurum og hjúkrunarfræðingum að vera ósáttur við launin sín eins og hann vakti athygli á núna um daginn. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Tryggvi vekur máls á bágum kjörum sínum því að í september 2010 hafði hann líka orð á þessu.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það fáránlega taktleysi Tryggva að kvarta yfir því að hann og aðrir úr „efri millistétt“ þurfi hreinlega að borga með sér en ég vil þó minna á að grunnlaun alþingismanna eru 520.000 krónur á mánuði og fyrir utan þau fá þeir greiddan kostnað fyrir hátt í milljón á ári hverju sem þeir margir hverjir kjósa að skipta í 12 jafnar greiðslur yfir árið. Um einhverjar aðrar greiðslur er einnig að ræða eftir því sem ég best veit. Í veröld Tryggva og Þráins Bertelsonar eru þetta kannski smápeningar en ég er ekki frá því að þeir hafi bara gott af því að reyna að lifa af svona ölmusu, þó ekki væri nema til þess að fá að kynnast því af eigin skinni hvernig það er að vera bara launahærri en 80% þjóðarinnar en ekki 90%.

En það sem stingur mig mest varðandi rökstuðning Tryggva Þórs fyrir því að launin hans verði að hækka er að hann hefur áhyggjur af því að ekki fáist hæft fólk á þing nema að launin hækki.

Því eins og allir vita þá vinnur hæft fólk ekki handtak fyrir neitt annað en algjörar hátekjur. Lág- og millitekjufólk er ekki hæft fólk. Kennarar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, smiðir, snyrtifræðingar, flugfreyjur og –þjónar og aðrir sem velja sér að starfa við eitthvað sem er svo ómerkilegt að ekki eru borgaðar hátekjur fyrir, fólk sem ekki þyrfti að borga með sér ef þannig vildi til að það slysaðist inn á þing, eru ekki hæfir einstaklingar í veröldinni sem Tryggvi lýsir.

Ég er rosalega ánægður með að inn á þing hafi valist fólk eins og Tryggvi og Þráinn. Fólk sem af fórnfýsi sinni fyrir almannahag lætur sig hafa það að þræla á þingi fyrir lúsarlaun og hreinlega borgar með sér! Það væri sorglegt ef að þessi ölmusa sem tekjur og sporslur þingmanna á Íslandi eru í dag yrði til þess að hugsjónafólk hyrfi frá því að helga sig þingstörfum. Það væri mikill skaði.

Áhugavert fréttamat RÚV

23/04/2011

Eins og ég bloggaði um í gær hélt Vantrú páskabingó til þess að mótmæla íslenskri helgidagalöggjöf (og fleiru,  lesið bara bloggið). Á Austurvelli söfnuðust saman líklega um 80 manns og skemmtu sér vel með kakó í annari, kleinu í hinni og bingóspjald í hin…nei við erum víst bara með tvær hendur. Þetta voru allvega bráðvel heppnuð mótmæli.

Og ég held að þau verði að teljst fréttnæm. Allavega töldu Fréttablaðið, Vísir.is, Bylgjan, DV og Stöð 2 að svo væri. Það var svosem lítið annað að gerast í gær. Það var svo lítið að gera að á mbl.is var sagt frá gönguferð sem farin var fyrir messu á Álfanesi. Þau miklu býsn gerðust víst líka að Passíusálmarnr voru lesnir víða, í þeim tilgangi að reyna skilja þjáningu Krists kannski. Í sjónvarpsfréttum RÚV var einmitt lika sagt frá geðsjúklingum á Filipseyjum sem húðstrýkja sjálfa sig og láta negla sig við krossa í sama tilgangi, með tilheyrandi hryllingsmyndum. Stöð 2 gerði þessum sjúku mönnum einnig skil. Ég er 28 ára gamall. Ég man ekki til þess að hafa upplifað Föstudaginn langa án þess að sjá fréttir frá Filipseyjum.

En hvorki Mogginn né RÚV sáu eitthvað fréttnæmt við 80 manna mótmælin á Austurvelli. Ég er svosem ekki hissa á fálæti Moggans en ég á ansi erfitt með að skilja hvað RÚV gengur til. En ég ætlaði nú svosem ekki að láta þetta fara í taugarnar á mér. Í kvöld var hins vegar hálfrar mínútu löng frétt um mótmæli í Þýskalandi. Mótmæli gegn helgidagalöggjöf sem ég gat ekki heyrt annað en að væri næstum því orðrétt jafn galin og sú íslenska.

Ef ég væri svo illa búinn að hafa bara aðgang að fréttatímum RÚV þá vissi ég semsagt að trúleysingjar og fylgismenn aðskilnaði ríkis og kirkju í Þýskalandi væru ósáttir við helgidagalöggjöf þar í landi og að þeir hefðu mótmælt á friðsamlegan og skemmtilegan hátt í gær. En að einhverjir hefðu gert nákvæmlega það sama hérna heima, það fengi ég ekki að vita.

Heiðarleiki íslenskra fjölmiðla

19/04/2011

Íslenskir netmiðlar eru ótrúlega óheiðarlegir. Nú er að finna á vísi.is þessa frétt um málaferli gegn Kurt Westegaard, danska skopmyndateiknaranum. Þessi frétt hefur tekið veigamiklu breytingum í dag. Þegar hún birtist fyrst var fullyrt bæði í fyrirsögn og í fréttinni sjálfri að Danir yrðu að framselja Westegaard, að þeir hefðu skuldbundið sig til þess í gegnum tilskipunina. Síðan þá hefur fréttin gengið manna á milli á Facebook þar sem að menn hafa annað hvort tekið henni gagnrýnislaust og séð þarna dæmi um galla við inngöngu í ESB eða þá séð í gegnum bullið og bent m.a. á bréfið sem Óli Tynes byggir fréttina á.

Einhver á Vísi.is, annað hvort Óli sjálfur eða einhver annar, hefur áttað sig á því hversu neyðarlegt þetta var. Og fréttin er löguð. Eða réttara sagt, henni er gjörbreytt efnislega án þess að nokkur fyrirvari sé gerður á því að um leiðréttingu sé að ræða og að mistök hafi verið gerð upphaflega.

Þetta er ansi leiðinlegur ávani bæði hjá Vísi og Mbl á netinu. Og þetta er alveg ofboðslega óheiðarlegt.

Siðleysi hundaeiganda

14/03/2011

Það býr siðlaus hundaeigandi í nágreni við leikskólann sem ég vinn á.

Seinasta vetur lentum við starfsfólkið ítrekað í því að þurfa að skófla upp hundaskít úr sandkassa og af fleiri stöðum í leikskólanum. Stundum voru börn byrjuð að moka í honum og einnig höfðu þau stigið á hann. Þegar þetta hafði gerst nokkuð oft sendum við myndir og orðsendingu í Kópavogspóstinn og þetta hætti svo að gerast snemma seinasta vor.

Það hefur líka verið óþolandi algengt að kettir hafi notað sandkassana okkar sem klósett. Til að stemma stigu við því eru nú komin net yfir sandkassana í leikskólanum og virðist þau virka ágætlega.

En í dag komu nokkur börn hlaupandi til mín fljótlega eftir að við komum út og sögðust hafa fundið kúk. Og viti menn, þessi líka fíni hundaskítur! Og slatti af honum líka. Inni í afgirta svæðinu fyrir yngstu börnin, sem eru 1-2 ára gömul, þar sem þau leika sér helst fyrst eftir að þau byrja á leikskólanum, fjarri ærslunum í reynsluboltunum úr eldri hópum.

Mér finnst þetta fullkomið siðleysi. Hversu hreinræktaður hálfviti þarftu að vera til þess að fara með hundinn þinn á leikskóla þegar hann þarf að skíta? Og hversu takmarkaður máttu vera á andlega sviðinu til þess að átta þig ekki á því að EF svo illa vill til að hundurinn þinn skíti á leikskólalóð þá skiljirðu ógeðið ekki eftir!

Nú ætla ég að láta í ljós ákveðna fordóma sem ég hef. Katta- og hundaeigendur eru, sumir, með sjálfhverfasta fólki sem þekkist*. Þeim fyrrnefndu finnst mörgum algjörlega fráleitt að lausaganga katta verði bönnuð, þrátt fyrir að henni fylgi mikill óþrifnaður og smithætta sem bitnar helst á börnum, almennt ónæði í mörgum tilfellum (kettir hafa oftar en einu sinni haldið fyrir mér vöku og jafnvel stokkið inn um glugga um miðjar nætur hér heima) og að köttunum sjálfu sé búin hætta vegna hennar. Þeir síðarnefndu eru furðulega gjarnir á að halda að upphirða á úrgangi dýranna þeirra sé samfélagsverkefni sem einhver annar en þeir sjálfir beri ábyrgð á.

Ég hef ekkert á  móti hundum og köttum. Þvert á móti eiginlega og mér finnst ömurlegt að ofnæmi sem ég hef fyrir köttum takmarkar samskipti mín við þá talsvert. Um dýraeigendur sem virðast halda að ábyrgð á dýrum sínum sé á hendi fleiri aðila en þeirra sjálfra gildir annað.

Og þú, siðleysinginn sem notar leikskólann minn sem úrgangssvæði fyrir hundinn þinn: þú ert rakið fífl. Megi allir fuglar landsins drita á höfuðið á þér.

*Þetta er, eftirá að hyggja, kannski fullmikil alhæfing þó að ég dragi aðeins úr henni. Flestir dýraeigendur eru ábyrgt fólk þó að svörtu sauðirnir geti gert mann mjög piraðann.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa sig – ekki

02/02/2011

Ég velti því æ oftar fyrir mér hvað í ósköpunum þingmenn flokksins sem ég tilheyri séu eiginlega að gera á þingi. Í sumum tilfellum  velti ég því hreinlega fyrir mér hvaða erindi ákveðnir þingmenn eigi lengur. Seinustu vikur hafa svo komið fram nokkur mál sem mér finnst flokknum, og viðkomandi þingmönnum til skammar. Dæmi:

1. Árni Johnsen vill veita Madina Salamova ríkisborgararétt. Madina hefur ekki sótt um slíkan rétt. Hún hefur þvert á móti lýst því yfir að hún hafi engan áhuga á honum. Það er hreinlega ekki einu sinni víst að málið sé þingtækt enda hlýtur það að vera einkennilegt að veita manneskju ríkisborgararétt gegn vilja sínum.

2. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er á móti búrkum og vill banna þær. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill setja lög um það hvernig fólk má klæða sig og það áður en fatnaðurinn sem lögin beinast gegn er almennt byrjaður að sjást á almannafæri á Íslandi.

3. Árni Johnsen, Jón Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Gunnlaugur Þór Þórðarson hafa lagt fram merkingarlausa þingsályktunartillögu um að grunnskólar skuli fara eftir lögum um grunnskóla. Greinargerðin sem fylgir með tillögunni er samansafn af útúrsnúningi, rangfærslum og tilvitnunum í erlend plögg sem komast að þveröfugri niðurstöðu við afturhalds-ríkiskirkjudekrið sem birtist í þessu fáránlega plaggi. Eins og ég hef bent á áður.

Hver er eiginlega stefna Sjálfstæðisflokksins í dag? Erum við að sigla inn í tíma þar sem flokkurinn ætlar helst að sækja á mið kristilegs íhaldsfólks? Eru frjálslynd hægrisjónarmið fjarri þingmönnum flokksins? Mætti ég biðja um minni bannhyggju og forréttindadekur í mónitor?

Gídeonformaður á fölskum forsendum

17/12/2010

Fjalar Freyr Einarsson skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Í blaðinu titlaði hann sig grunnskólakennara en gefur ekki frekari deili á sér í greininni sjálfri, sem er um margt sérstök og sýnir m.a. stórfurðulegan skilning á hugmyndafræði Skóla án aðgreiningar. Það vakti líka athygli mína að Fjalar talar um ‘öfgatrúleysingja’ og reynir þannig að mála þá sem eru ósammála honum sem hættulegt fólk (því við vitum jú öll að öfgar eru hættulegar).

Fjalar Freyr hefur komið við sögu í umræðu um trúboð í skólum áður, þar sem hann hefur m.a. haldið á lofti þeim ósannindum að hér á landi berjist einhverjir fyrir því að banna kennslu um trúarbrögð og tiltók hann þar sérstaklega Siðmennt. Sigurður Hólm svaraði grein Fjalars sem birtist í Morgunblaðinu í febrúar á þessu ári.

En hver er þessi Fjalar Freyr Einarsson? Ef marka má greinina í Fréttablaðinu er hann bara grunnskólakennari sem hefur áhyggjur af yfirgangi trúleysingja. En þegar þetta hérna er skoðað kemur í ljós að Fjalar er hvorki meira né minna en formaður Gídeonfélagsins á Íslandi. Sem setur áhyggjur hans auðvitað í ákveðið samhengi.

En Fjalar hefur leikið þennan leik víða upp á síðkastið. Þegar fjölmiðlar tóku tillögur Mannréttindaráðs RVK til umfjöllunar hringdi Fjalar Freyr inn í símatíma í síðdegisútvarpi Rásar 2 þar sem hann kynnti sjálfan sig sem grunnskólakennara og fann þessu allt til foráttunnar. Í kjölfar þess viðtals birtist annað viðtal við hann í Morgunblaðinu þar sem hann segist vera kennari í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði (skoðið neðarlega í þessari grein).

Og hann hefur líka látið gamminn geysa í umræðum á netinu. Hérna sést hvar Fjalar kemur inn í umræðuna eftir að Tinna Gígja bendir á að það sé klárlega trúboð þegar Gídeonmenn mæti inn í skólastofur og biðji með börnum:

@ Tinna

Hvaðan hefur þú þá vitneskju að utanaðkomandi s.s. Gídeonmenn séu að koma í skólana og kenna börnum að biðja? Ég hef sjálfur tekið all nokkrum sinnum á móti Gídeonmönnum og aldrei hefur það komið til að biðja. Þeir hafa í engu farið gegn nokkru sem ég get ekki samþykkt í skólastofunni. Farðu með rétt mál Tinna.

Og sjáið þetta hér:

Ég hafði samband við Gídeonfélagið og sagði þeim frá þessu. Þeir urðu mjög undrandi og sögðu þetta ekki samkvæmt þeim reglum sem félagið setti og könnuðu málið.

Þetta hefur verið áhugavert samtal sem Fjalar átti við sjálfan sig. Ég er viss um að hann varð mjög undrandi.

En allt skilur þetta eftir sig stóra spurningu: af hverju kemur formaður Gídeonfélags Íslands, félags sem á mikilla hagsmuna að gæta í þessari umræðu, ekki hreint fram? Af hverju þessi feluleikur? Er Fjalar ef til vill hræddur um að orð hans hafi minna vægi þegar fólk veit hvaða hagsmuna hann hefur að gæta?

Vonlaus prestur

18/10/2010

Guðrún Karlsdóttir er ein af nokkrum prestum sem blogga hjá Eyjunni. Hún er eins og aðrir prestar og fleiri aðilar sem vilja fá að stunda trúboð í skólum í heilmikilli vörn útaf tillögum mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar sem ganga út á að trúboð og önnur trúarstarfsemi fari ekki fram í skólum sem borgin rekur. Guðrún er reyndar í svo mikilli vörn að hún virðist eitthvað hálf kvekkt, allavega ef við miðum við þessi orð hennar:

Þetta eru mikilvæg mannréttindi vegna þess að foreldrar hafa kvartað svo mikið yfir þessu. Ætli þetta séu sömu foreldrar og biðja um leyfi fyrir börnin sín svo þau komist í Vatnaskóg? Ætli þetta séu sömu foreldrar og þeir sem hafa skráð sig úr Þjóðkirkjunni en vilja samt að börnin þeirra fermist þar? #

Er hún að gera lítið úr réttindum barna til þess vera ekki tekinn út úr kennslu vegna trúarskoðana? Er hún að gera lítið úr því ástandi sem skapast í fjölmörgum skólum þegar meirihluti nemenda hverfur úr kennslu í tvo daga með tilheyrandi raski og tapi á kennslu fyrir aðra nemendur? Og er manneskjan að ýja að því að það búi svo ekkert á bakvið þetta nema hvað? Frekja og tilætlunarsemi? Hvað gengur manneskjunni eiginlega til?

Það er alveg magnað að fylgjast með hverjum prestinum og trúarleiðtoganum á eftir öðrum ana fram á sjónarsviðið og afvegaleiða umræðuna með rangfærslum og lélegum mælskubrögðum. Og af því að þeim hefur tekist að eitra umræðuna eins mikið og t.a.m. hinar röngu og óupplýstu fullyrðingar sem meira að segja kennarar sem hringdu inn í Dægurmálaútvarp Rásar 2 þegar málið var rætt í dag bera með sér þá er víst best að taka þetta fram strax:

  • Það er EKKI verið að leggja til að fræðslu um trúarbrögð, þar sem kristni verður eðlileg gerð meiri skil en öðrum trúarbrögðum, verði hætt í grunnskólum.
  • Það er EKKI verið að leggja til að leik- og grunnskólar hætti að leggja mikið upp úr jólaundirbúningi eða að hætt verði að halda jólaböll í skólum. Ég verð svo að benda á að á öllum þeim árum sem ég hef starfað á leikskólum hefur ekki verið sunginn einn einasti sálmur fyrir jól svo að varla hefur það mikil áhrif.
  • Það er verið að leggja til að boðun trúar verði aflögð í opinberum menntastofnunum og að prestar hafi ekki, frekar en aðrir fulltrúar lífsskoðunarfélaga, greiðan aðgang að þessum stofnunum.
  • Það er verið að leggja til, í anda skóla án aðgreiningar, að hætt verði að gera upp á milli nemenda og að taka suma út fyrir sviga vegna trúarskoðana.

Það myndi hjálpa umræðunni mikið ef að fulltrúar ríkustu hagsmunasamtakanna sem að henni koma gætu lyft sér upp á eðlilegt plan í henni og slepptu rangfærslum og útúrsnúningum.

-bætt við færslu klukkan 23:45. Þó að ég sé trúlaus og þar með laus við siðferði og samvisku er fyrirsögnin á þessum pistli mínum aðeins að naga mig. Hún er, fyrir þá sem ekki elta linkinn hér fyrir ofan, útúrsnúningur á nafninu á færslu Guðrúnar þar sem hún lætur tilvitnuðu orðin falla. Ég veit ekkert um það hvort að Guðrún sé vonlaus sem prestur. En í rökræðum virðist hún ekki skörp.