Archive for the ‘Leikskólamál’ Category

Sturlaður leikskólakennari skrifar

24/11/2011

Það sem menn gera endurspeglar oftar en ekki raunverulegar skoðanir þeirra á mönnum og málefnum betur en það sem menn segja. Líklega eru fáar stéttir sem þetta á betur við um en stjórnmálamenn. Það er nefnilega svolítið þannig að þeir segja það sem þeir halda að viðmælendur sínir vilji heyra. Þess vegna verður maður að skoða hvað þeir gera.

Besti Flokkurinn og Samfylkingin mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Þeim þykir leikskólar ekkert sérstaklega merkilegir og leikskólakennarar ekki heldur. Annað verður allavega ekki ráðið ef við sleppum fagurgalanum og skoðum bara hvað þessi meirihluti hefur gert.

Ákveðið var að leggjast í sameiningar á leikskólum, annað hvort við aðra leikskóla eða við grunnskóla. Þetta var gert í trássi við vilja og ráðleggingar fagfólks og foreldra. Vissulega mátti skoða það að sameina einhverjar rekstrareiningar en ekkert tillit var tekið til mismunandi hugmyndafræði og stefnu í leikskólastarfi, né skýran vilja foreldra í sumum tilfellum. Við þessar aðgerðir var leikskólastjórum og aðstoðarleikskólastjórum fækkað, en það er líklega eina millistjórnendastétt borgarinnar þar sem konur eru í meirihluta.

Árangur þessara ákvarðana, sem voru teknar án þess að vitað væri hvað myndi sparast á hverri sameiningu, hefur nú komið berlega í ljós.

Í haust varð nefnilega ljóst að ákveðið hafði verið að taka ekki inn börn fædd árið 2010 á leikskóla borgarinnar. Hver tók þá ákvörðun, hvenær og hvernig faglegar forsendur voru metnar (ef þær voru það yfirhöfuð) hefur ekki komið skýrt fram. Hins vegar liggur fyrir að laus pláss eru á leikskólum borgarinnar fyrir börn fædd árið 2010.

Þegar fjölmiðlar fóru loks að sýna þessu málefni áhuga nú í byrjun vetrar fengu leikskólastjórar í borginni bréf frá borgaryfirvöldum sem sumir túlkuðu sem svo að þeim væri ekki leyfilegt að svara fyrirspurnum fjölmiðla, en ein slík hafði borist á alla leikskólaborgarinnar sama dag og borgin sendi bréfið.

Í dag var svo ákveðið að svipta leikskólakennara í borginni svokölluðu neysluhléi, sem þeir fengu borgað sem 10 yfirvinnutíma á mánuði. Á sínum tíma var þessi greiðsla tekin upp vegna manneklu og álags. Á þriðjudag var sagt að í greinargerð með tillögunni kæmi fram að slíkt ástand væri ekki til staðar í dag. Formaður Félags leikskólakennara benti réttilega á að það er einfaldlega bull.

Þá bregður svo við að í greinargerð sem lögð var fram með tillögunni í dag er ekkert á þetta minnst. Hins vegar er aðgerðin réttlætt með því að neysluhlésgreiðslurnar hafi verið hluti af kröfum leikskólakennara við gerð seinasta kjarasamnings. Staðreyndin er hins vegar sú að þessi krafa gekk ekki eftir heldur byggjast launahækkanirnar sem leikskólakennarar náðu í gegn á allt öðrum forsendum, eins og þeir sem fjalla um þessi mál ættu auðvitað að vita.

Halli, formaður félags okkar leikskólakennara, segir í yfirlýsingu í dag að leikskólakennarar í Reykjavík séu sturlaðir vegna þessa. Ég held að það sé óhætt að segja að leikskólakennarar almennt á Íslandi séu það líka.

Ekki bara vegna þessa máls heldur vegnar þess virðingarleysis fyrir leikskólum sem sífelldar árásir Samfylkingarinnar og Besta Flokksins í Reykjavík sýna. Þegar gerðir, en ekki orð, meirihlutans í leikskólamálum eru skoðaðar er niðurstaðan ekki góð. Ekki fyrir vini leikskólans í það minnsta.

 

Langt svar við leiðinlegri spurningu um leikskólakennara

18/08/2011

Spurt hefur verið: af hverju fórstu í þetta nám vitandi það að launin væru svona léleg?

Svarað er nú: af því að mér fannst starfið áhugavert, námið spennandi og fagheimurinn fullur af skemmtilegum pælingum sem eru í sífelldri þróun. Já og vegna þess að mér finnst gaman að umgangast og að vinna með börnum. Og það gleymdist alveg að segja mér að lág laun væru náttúrulögmál og að þegar ég hóf nám hafi ég fyrirgert rétti mínum til þess að krefjast hærri launa en þeirra sem voru í boði á þeim tíma.

Ég lít ekki svo á, og vil helst ekki að þið gerið það heldur, að ég hafi verði að fórna mér af einhverri góðmennsku. Ég hef einfaldlega brennandi áhuga á þessu starfi og þessum fræðum. Með því fylgir auðvitað að ég vil gera mitt til þess að veita þeim börnum sem ég kynnist í starfinu þá menntun, vinskap og umhyggju sem ég get veitt þeim.

Starfið er gríðarlega gefandi. Það eru kannski launin fyrir „góðmennskuna“. En starfið er líka gríðarlega krefjandi og getur jafnvel á stundum verið slítandi, andlega og líkamlega. Mér finnst ég ekki vera frekur eða furðulegur fyrir að vilja að vinnuveitandi minn greiði mér laun í samræmi við það sem fólk í viðmiðunarstéttum eins og grunnskólakennarar (ég sat nota bena þónokkra áfanga með grunnskólakennurum í mínu námi) fær fyrir sína góðu vinnu.