Archive for the ‘Almennt/hugleiðingar’ Category

Góða fólkið og öfgafólkið

04/09/2013

Að fylgjast með samfélagsumræðunni á Íslandi er stundum eins og að horfa á… tja, ég veit eiginlega ekki í hvaða líkingu ég á að grípa hér. Umræðan er stundum svo firrt að það þarf háfleygari heilakvarnir en mínar til þess að lýsa henni almennilega. 

Umræður um hverskonar „öfgar“ eru yfirleitt mjög frjóar svo ég taki dæmi. Við sem eru meðlimir í Vantrú erum til dæmis mikið öfgafólk. Öfgarnar sem við leyfum okkur eru þær að andæfa sókn trúfélaga, og þá sérstaklega ríkiskirkjunnar, inn í opinbert rými (sem er ekki það sama og almannarými, ég þarf að taka þetta fram að gefnu tilefni) auk þess sem við reynum að benda á kukl og hindurvitni sem vaða uppi. Greinarnar sem við birtum á vefriti okkar eru oft harðar en við spörum við okkur gífuryrði nema að við teljum tilefni til þeirra. Ég held, nei ég er eiginlega alveg viss um, að það er ekki innihald greinanna sjálft sem stuðar fólk heldur sú staðreynd að við leyfum okkur að tala á sama hátt um trúarbrögð og aðrir tala um pólitík. Þannig ógnum við fyrirbæri sem hefur völd. Og það er ávísun á leiðindi. 

Í gegnum tíðina hefur okkur verið lýst sem þröngsýnum, fáfróðum og skilningslausum. Við höfum verið sögð hreinlega heimsk og varla þess virði að orðum sé í okkur eytt, svo að ég haldi mig bara við dæmi sem eru innan við tveggja vikna gömul. Auk þess höfum við fengið að heyra að við séum níðingar sem ekkert gott látum af okkur leiða. 

Það sem er magnaðast er að þeir sem lýsa okkur svona líta á okkur sem öfgafólkið en sig sem hófsama. 

Undanfarna daga hefur átt sér stað alveg stórkostleg umræða um annað öfgafólk. Tveim konum blöskraði að fyrrverandi ráðherra og sendiherra sem misnotaði aðstöðu sína sem starfsmaður utanríkisþjónustunnar og skrifaði barnungri frænku sinni klámfengin bréf væri ráðin sem gestalesari við Háskóla Íslands. Þessar konur eru femínistar og þannig samkvæmt skilgreiningu öfgafólk. Og þeir leyfðu sér að skrifa hreinlega grein á internetið, INTERNETIÐ!, þar sem þær veltu fyrir sér réttmæti þess að þessi einstaklingur væri ráðin sem gestafyrirlesari við HÍ. Þær fóru ekki fram á að hann yrði rekinn en kröfðu háskólann svara. 

Ingimar Karl Helgason skrifaði í gær grein þar sem hann tók m.a. saman hluti sem látnir hafa verið falla í umræðunni sem skapaðist í kjölfar greinar kvennanna tveggja:

Orð og setningar sem hafa komið fram í þessari umfjöllun eru t.d. „brennuvargar“, „ofstækislið“, „geðveiki“, „hugleysi“, „brot á mannréttindum“, „öfgafullur minnihluti“, „litlar þrýstisellur“, „vaða uppi með látum“, „kúgun“, „hálar brautir“, „Berufsverbot“, „hótanir kynjafræðinga“, „linnulaus klögumál“, „ef einhver öskrar nógu hátt“, „ofstækisfullur sértrúarsöfnuður“, „rangar og vondar hugmyndir“, „pólitískur rétttrúnaður“, „talíbanar“, „refsing“, „heift“.

Konurnar hafa einnig verið kallaðar grimmir femínistar og þær hafa verið sagðar haldnar kvalalosta, gægjufíkn og yfirdrifnum hefndarþorsta. 

En munið samt að þær eru öfgafólkið í þessu máli. Af því að þær eru að rugga bátnum. Og eins og ég hef fengið að kynnast eftir að ég gekk í Vantrú þá má það ekki. Það eru sjálfkrafa öfgar. Öfugt við það að líkja fólki við nasista og talibana. 

Nektarmyndir af íslenskum stjórnmálamanni!

23/12/2011

 

Nei djók!

Gleðileg jól!

Jólahald trúleysingjans

19/12/2011

Ég er farinn að skrifa svolítið á nýtt vefrit sem heitir Hamragrill. Ég var að setja þar inn grein um jólin og hvernig ég held upp á þau. Endilega kíkið!

Að pota í rassgöt á landi eða á sjó

17/11/2011

Dómurinn yfir kynferðisglæpamönnunum sem misþyrmdu 13 ára barni um borð í skipi hefur vakið talsverða athygli og hneykslun. Skiljanlega. Það sem átti sér stað um borð í skipinu var hræðilegt. Maður getur ekki annað en fundið til með barninu sem var fast um borð í skipi með kvölurum sínum í fleiri daga. Það eru aðstæður sem maður óskar engum.

Eitt af því sem mennirnir gerðu var að pota í endaþarm drengsins með fingrum og öðrum hlutum. Í allavega eitt skiptið fór fingur inn í endaþarm drengsins skv. atvikalýsingu.

Nú vill svo til að fyrr á árinu féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur þar sem maður var dæmdur fyrir að stinga tveimur fingrum í endaþarm konu þar sem hún var að pissa á Austurvelli.

Skipverjarnir fengu skilorðsbundna dóma í 45 daga (tveir þeirra), 60 daga og þrjá mánuði. Maðurinn á Austurvelli fékk 18 mánaða óskilorðsbundna refsingu.

Vandamálið er það að skipverjarnir voru ákærðir fyrir að beita kynferðislegri áreitni með lostugu athæfi sem særði blygðunarkennd en sá á Austurvelli var ákærður fyrir nauðgun. Samt er erfitt að sjá að brot skipverjana hafi verið annars eðlis, hvað þá vægari. Þeir voru auk þess að brjóta gegn barni. Saksóknarinn í því máli skuldar útskýringar á því hvað lá að baki ákvörðun um hvað ákært skyldi fyrir.

————————

Yfirlýsing umboðsmanns barna frá því í gær þar sem hann fagnar niðurstöðu dómsins er annað atriði sem kallar á útskýringar. Satt best að segja finnst mér að Margrét María þurfi hreinlega að huga að stöðu sinni eftir þessa yfirlýsingu.

Gídeonforsetinn og mannréttindi barna

06/10/2011

Svo óvenjulega vildi til að ég horfði á fréttirnar á Stöð 2 í gærkvöldi. Þar var fjallað um nýsamþykktar reglur Reykjavíkurborgar um samskipti lífsskoðunar- og trúfélaga við menntastofnanir þar sem loksins er kveðið skýrt á um að trúboð verður ekki stundað í leik- og grunnskólum borgarinnar (eða í dægradvölum þeirra síðarnefndu). Eins og gefur að skilja var eini viðmælandi fréttastofunnar nýr forseti Gídeonfélagsins. Ég held allavega að hann sé nýr. Þetta var í það minnsta ekki Fjalar Freyr sem ennþá er skráður forseti á síðu ríkiskirkjunnar. Fjalar Freyr hefur þó reyndar lengi skammast sín fyrir að gegna þessu embætti eins og ég hef bent á áður. Þá er lítið að græða á heimasíðu Gídeonfélagsins á Íslandi, þið eruð allavega klárari á netið en ég ef þið finnið á síðu félagsins hverjir eru í stjórn þess.

En nýji forsetinn, sem ég náði ekki nafninu á, er þeirrar skoðunar að skilningur Reykjarvíkurborgar á mannréttindum sé eitthvað skrýtinn. Það sé nefnilega ekki mannréttindi að minnihlutinn geti haft af meirihlutanum það góða samstarf sem hefur ríkt á milli trúfélaga og skóla hingað til.

Það eru s.s. ekki mannréttindi þegar meirihlutinn getur ekki haft sitt fram lengur fyrir vælinu í minnihlutanum.

Það hefur einhver skrýtnar skilgreiningar á mannréttindum en ég held að það sé nokkuð ljóst að það er ekki borgin.

Mannréttindi snúast ekki um meirihluta eða minnihluta. Þau snúast um rétt einstaklinga. Þau snúast um að virða ólíkar skoðanir og ólík gildi. Ef að barni og foreldrum þess er stillt þannig upp við vegg að annað hvort taki barnið þátt í trúarathöfnum trúarbragða sem það tilheyrir ekki eða þá að það sé fjarlægt frá úr sínum hefðbundna hóp á meðan þá er ekki verið að virða réttindi barnsins. Alveg óháð öllum meiri- eða minnihlutum.

Gídeonfélagið er trúboðafélag. Félagið hefur þann tilgang að „ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist“. Dreifing NT til grunnskólabarna er ein helsta aðferð félagsins í trúboðinu hér á landi. Félagsmenn leitast við að lesa upp úr ritinu fyrir börnin þegar þeir mæta inn í bekki. Þeir vilja líka biðja með  börnunum.

Þetta er klárt trúboð. Og skilningur félagsmanna er ekki meiri en svo að þeir halda að svo lengi sem þeir hafi einhvern óskilgreindan meirihluta með sér þá geti þeir ekki verið að brjóta á réttindum barna sem ekki eru kristin.

Mikið ofboðslega er ég feginn að þetta fólk fái ekki lengur aðgang að grunnskólabörnum á skólatíma.

Þjófstartað – punktablogg

18/09/2011

Hér birtist áðan pistill sem átti ekki að birtast strax. Ég tók hann út af því að honum er ætlað að birtast á öðrum vettvangi áður en hann birtist hér. Það er semsagt ekki um neina ritskoðun að ræða heldur einfaldan klaufaskap i sjálfum mér því ég hafði steingleymt að breyta birtingaráætluninni sem ég var búinn að stilla pistilinn á.

En fyrst ég er byrjaður að skrifa, hvað með smá punktablogg?

  • Væri í alvörunni til of mikils mælst að Stöð2Sport2 sýndi þeim sem punga út fyrir áskrift þá virðingu að láta auglýsingahlé ekki ná fram yfir byrjun leikja? Nú er í gangi fimmta umferð þessa tímabils í ensku deildinni og nú þegar hefur þetta gerst í fjórum leikjum svo ég viti til
  • Þessi pistill Davíðs Þórs. Ég skil alveg hvað Davíð er að fara en mér finnst hann fremja Sannan skota að einhverju leyti. Og svo finnst mér óskiljanlegt að bendla siðrænan húmanisma við voðaverk kommúnista gegn trúuðu fólki. Ég veit ekki til þess að siðrænn húmanismi hafi verið yfirskrift þeirrar hugmyndafræði sem þar réði ferðinni.
  • Nú er verið að rifja upp gamla frétt þar sem Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson höfðu mælt með aðildarviðræðum við ESB. Ég skil ekki hverju svona á að skila. Þetta er aðferðafræði úr smiðju AMX og Andríkis. Og trúið mér, ef það á virkilega að fara út í svona æfingar þá vinna þeir því að þeir hafa fullkomnað þessa aðferð í gegnum tíðina. Svo finnst mér það eiginlega bara ekkert fréttnæmt að stjórnmálamaður hafi þá skoðun sem helst hentar hverju sinni.
  • Ég á Aygo, sem er mjög sparneytinn bíll. Samt er ég strax farinn að sjá hverju það munar fyrir mig í bensíneyðslu að þurfa ekki að keyra inn í hafnarfjörð 3-4 sinnum í viku eins og seinustu fjögur ár. Enn einn kosturinn við það að útskrifast.
  • Ég er búinn að taka mjög mikið af myndum undanfarið en nánast bara fyrir leikskólann. Sem þýðir að ég get ekki birt myndirnar opinberlega. Ég þarf að fara að taka meira af myndum fyrir sjálfan mig.
  • Og hey! Haustlitir.
  • Æi ohh, stormur.
Ég held að ég láti þetta nægja í bili.

SÍS í skrýtum leik

17/08/2011

Enn er deilt um hvort að leiðbeinendur megi ganga í störf leikskólakennara í yfirvofandi verkfalli. Þetta er furðuleg deila, svo furðuleg að ég er ekki ennþá viss um að SÍS ætli raunverulega að láta á þetta reyna. Mig grunar að þetta sé fyrst og fremst taktík, að takmarkið sé að gera leikskólakennara að vonda fólkinu sem stendur í vegi fyrir því að leikskólar geti – löglega – tekið við börnum þrátt fyrir verkfall. Leikskólakennarar versus fjölskyldurnar.

En þetta er fáránleg pæling. Hverjum dettur í hug að þegar fagstétt leggur niður vinnu geti vinnuveitandinn leyst málið með því að láta ófaglærða einfaldlega ganga í störfin? Sér einhver fyrir sér að ef að sjúkraliðar færu í verkfall gætu ófaglærðir starfsmenn, eins og finnast á fjölmörgum hjúkrunarstofnunum, einfaldlega leyst þá af á meðan? Svona í alvöru?

Framkoma SÍS er pólitíkusunum sem þar ráða ríkjum ekki til framdráttar.

Reykholt

13/08/2011

Fleiri myndir úr ferðinni góðu. Í þetta skiptir úr Reykholti. Allt settið er hér.

Það flugu apar út úr rassinum á mér…

11/08/2011

…og bættust þeir í hóp fljúgandi svína sem voru í oddaflugi yfir Reykjarvíkurtjörn.

Eða það er allavega ekki ólíklegra en það að Jón Magnússon hafi verið að kvarta yfir fordómum í garð manna af sinni þjóðfélagsstöðu og bera sig saman við gyðinga á fyrri hluta seinustu aldar. Jón Magnússon. Æi þið vitið, hæstarréttarlögmaðurinn sem sat á þingi. Bara alveg eins og „júðarnir“ (hans orðalag). Ofsóttur, hrakinn, landlaus, úrhrak samfélagsins, í sífelldum ótta um líf sitt og limi svo ekki sé talað um annara af sínu kyni.

Þessi þarna sem skrifaði greinina Ísland fyrir Íslendinga? þar sem hann setti þennan stórkostlega fyrirvara:

Enginn má engin skilja orð mín svo að ég sé á móti Pólverjum eða öðru kristnu fólki úr okkar heimshluta.

Nei, Jón hefur sko enga fordóma gagnvart heiðvirðu kristnu fólki.

Hann sjálfur skilur nefnilega vel hvernig það er að verða fyrir fordómum.

Er þetta fílahjörð þarna við hliðina á demantanámunni?

Páll Óskar, fordómarnir og íslenska umræðuhefðin

07/08/2011

Af einhverjum ástæðum hefur orðið einhver umræða um orð sem Páll Óskar Hjálmtýsson lét falla í viðtali við RÚV í gær. Ég fatta það ekki alveg og held að hún hljóti að byggja á annað hvort misskilningi eða ofurviðkvæmni. Skoðum hvað það var sem Palli sagði sem fer svona fyrir brjóstið á fólki:

Mér finnst gay-pride hátíðin vera löngu komin út fyrir það að vera bara einhver hátíð vegna mannréttindabaráttu samkynhneigðra. Þetta er hátíð fyrir alla þá sem láta sig lágmarks mannréttindi einhverju varða. Alla þá sem eru orðnir leiðir á hatrinu og níðinu – inni á internetinu, öllum ógeðslegu kommentunum sem hægt er að segja um alla minnihlutahópa.

Þetta er auðvitað mjög gild skoðun enda held ég að flestir taki undir þetta. Allavega snýst umræðan ekki um þessi orð, eins og hún ætti nú kannski frekar að gera.

Það er engu líkara en sá eini sem fær að vera í friði í þessum heimi, það er hvítur straight karlmaður í jakkafötum hægri sinnaður og á peninga. Og stundum er þessi karlmaður með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni. Allt annað má kalla einhverjum nöfnum. Allt annað er hægt að uppnefna: „Helvítis femínisti, helvítis kéllingar, helvítis hommar, helvítis þið, blíh, blah!“ Þannig að út með kvenfyrirlitninguna, út með fyrirlitningu á öðrum kynþáttum, öðru fólki sem er af annarri stöðu og stétt en þú. Við eigum öll að sitja við sama borð. Og til þess er þessi dagur. Við verðum að gera þetta einu sinni á ári. Við megum ekki sofna á verðinum

Það er þetta sem ég feitletra sem fólk virðist vera viðkvæmt fyrir. Og ég skil ekki af hverju.

Ég held reyndar að það sé rangt hjá Palla að hvítir, kristnir, gagnkynhneigðir karlmenn verði aldrei fyrir fordómum*. En ég skil líka að þegar um er að ræða einhvern mesta forréttindahóp seinni alda þá hneigist margir til að láta einhverja gremju bitna á þeim (eða tja, okkur, ég uppfylli allar þessar kröfur nema kristnina) og til þess að flokka kvartanir hópsins sem hálfgert væl, einmitt vegna þessara forréttinda.

En að Palli hafi verið að dreifa einhverjum fordómum sjálfur, eða að segja að það væri í lagi að níða þennan hóp er algjör þvæla. Það gerir hann hvergi. Hann bendir á að innan þessa hóps finnist fordómafullir menn. Er það rangt? Vantar ykkur dæmi? Eigum við að reyna að finna hvítan, vel stæðan, kristinn, gagnkynhneigðan karlmann lýsa fordómum? Eigum við að þrengja leitina enn frekar og einskorða okkur bara við ummæli sem féllu í tengslum við Gay Pride? Lítið mál:

Mér finnst þetta hörmung. Ég verð að segja það eins og er. Að standa í kynlífsögrandi stellingum uppi á einhverjum vögnum. Frelsið er sjálfsagt en nú orðið eiga þeir sem hafa klassískar biblíulegar skoðanir verulegar undir högg að sækja. Baráttan hefur snúist við. #

Hér erum við með hvítan, vel stæðan, kristinn, gagnkynhneigðan karlmann sem þolir ekki einu sinni að vera í sama þéttbýliskjarna og Gleðigangan er haldin.

En neinei, við skulum ekki ræða þá fordóma sem raunverulega eru til staðar neitt. Við skulum frekar of- og rangtúlka fullkomlega réttmætar ábendingar Páls Óskars og röfla soldið um þær. Það er meira í takt við íslenska umræðuhefð.

*-bætt við 7.8. kl. 17:40: Mér hefur verið bent á að Palli fullyrðir auðvitað ekki að þessi hópur verði aldrei fyrir fordómum heldur segir að „það sé engu líkara en að“ svo sé. Rétt skal vera rétt.