Gerir grein fyrir atkvæði sínu

Ég fór og kaus áðan. Eins og mér var kennt að maður geri í lýðræðisríki þegar kosningar eru haldnar. Einhverjir gætu reyndar kverúlantast með það orðalag að ég hafi „kosið“ þar sem að kjörseðillinn minn breyttist ekkert frá því að ég fékk hann í hendurnar og þar til ég setti hann í kjörkassann. Ég skilaði auðu.

Ég gat ekki hugsað mér að kjósa Ólaf Ragnar. Það á sér aðallega tvær ástæður. Sú fyrri er sú að mér finnst hann eiginlega fyrst og fremst vera tækifærissinnaður framapotari. Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni þegar hann framkvæmir einhverja gjörninga, eins og t.d. að neita að skrifa undir lög, að það sem mest vægi hafi í ákvörðunum hans sé hvernig hann hagnist á þeim sjálfur.

Mér er alveg sama hvað hann er gamall. Ég bara sé ekki hvernig það kemur málinu við. Og mér er líka alveg sama hvað hann hefur setið lengi. Hann má sitja eins lengi og hann getur sannfært nógu marga kjósendur til þess að leyfa sér það.  Það að hann hafi verið „en helsta klappstýra útrásarinnar“ finnst mér líka veik rök gegn honum. Hann gerði voða lítið annað en að feta braut forvera sinna í þeim málum.

Ég kaus heldur ekki Þóru. Mér finnst hún mjög frambærileg kona og ég treysti henni alveg til góðra verka. Hún náði hins vegar engan vegin að sannfæra mig um að greiða sér atkvæði. Ef hún hefði gefið upp skýrari afstöðu í flestum málum en hún gerði þá hefði ég kannski freistast, mig grunar nefnilega að ég sé sammála henni í mörgum málum. Og það hjálpaði ekki til þegar hún sagði að hún teldi ekki rétt að aðskilja ríki og kirkju vegna þess að kirkjan skipti marga svo miklu máli. Aðskilnaðurinn er eitt af mínum hjartans málum og ég viðurkenni það fúslega að ég læt afstöðu fólks til hans hafa áhrif á það hvort að ég styð það til embætta. Kosningaherferð Þóru fannst mér einnig ekki nógu góð en þar er kannski ekki eingöngu við hana sjálfa að sakast.

Eins og með Ólaf Ragnar þá finnst mér aldur Þóru ekkert atriði. Hún er til dæmis miklu eldri en ég (JÚ VÍST!). Fjölskylda Þóru fannst mér frekar kostur en galli. Það yrði ekkert neikvætt við það að fá unga fjölskyldu á Bessastaði, þvert á móti eiginlega. Svavar virkar líka á mig sem maður sem getur vel hugsað um börnin sín og stutt konuna sína í mikilvægu embætti. Ég held líka að eðli forsetaembættisins geri það að verkum að það sé ekkert erfiðara með tilliti til fjölskyldulífs en t.d. hjá fjölskyldum þar sem foreldrar vinna reglulegan 8-9 tíma vinnudag.

Ég veit voða lítið um Hannes en mér finnst ekki trúverðugt að bjóða sig fram til forseta eftir að hafa búið erlendis í fleiri ár. Herdís náði engan vegin að sannfæra mig um að hún ætti heima á Bessastöðum og Andrea hefur sýnt svo furðulegan skilning á stjórnarskránni að mér dytti ekki í hug að kjósa hana, eins ágæt og hún annars er.

Ég var svolítið heitur fyrir Ara Trausta á tímabili. Mér fannst hann koma sínum skoðunum vel á framfæri og gat tekið undir margt af því sem hann hafði fram að færa.

En það að engin af frambjóðendunum hafi heillað mig skipti þó ekki mestu máli. Mér finnst þetta embætti nefnilega vera tímaskekkja og vil einfaldlega leggja það niður. Á meðan ég er þeirrar skoðunar þá finnst mér ekki rétt að kjósa einhvern einstakling til að gegna því. Ég veit ekki hvort að það megi kalla þetta prinsippafstöðu eða hvort að þetta sé bara minn eðlislægi kverúlantaháttur. Ég efast ekki um að þeir sem þekki mig hallist að því síðara.

En ég get ekki sleppt því að skrifa aðeins um kosningabaráttuna. Ef það sem hefur gengið á seinustu vikur er það sem koma skal ef að persónukjör verður almennt tekið upp í kosningum hér á landi þá er ég hér með orðin andstæðingur þess. Þegar stærsti hluti umræðunnar snýst um að það eigi ekki að kjósa þennan frambjóðanda af því að hann sé nú svona eða hinseginn og minnihlutinn um af hverju maður eigi að kjósa viðkomandi frambjóðanda þá finnst mér fólk verið komið á villigötur.

Auðvitað voru það fyrst og fremst stuðningsmenn frambjóðenda sem töluðu á þessum nótum (með nokkrum undantekningum) og það verður kannski seint hægt að koma í veg fyrir að ofurkappsamir stuðningsmenn fari fram með meiri leiðindum en gott má teljast en þeir sem að stýra framboðum geta þó haft áhrif. Ég tók aldrei eftir því að frambjóðendurnir sjálfir eða fólk í kosningastjórnum þeirra reyndi að fá fólk til að halda aftur af sér í blammeringum á andstæðinga.  Það hefði verið vel séð.

————————

En ég vaknaði semsagt snemma í morgun, klæddi mig í fín föt og burstaði í mér tennurnar. Það voru eftir á að hyggja mistök, ég hefði átt að byrja á því að tannbursta mig og koma þannig í veg fyrir að ég þyrfti að skipta um bol. En þegar því var lokið skundaði ég á kjörstað og inn í kjörklefa, horfði á kjörseðilinn minn í nokkrar sekúndur og skilaði honum svo ósnertum.

Og nú er bara að bíða eftir kosningavökunni. Áfram Auður!

Eitt svar to “Gerir grein fyrir atkvæði sínu”

  1. svartur eldhús blöndunartæki með útdráttarslöngu Says:

    þetta er mjög fræðandi og áhugavert, takk fyrir að deila

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s


%d bloggurum líkar þetta: