Góða fólkið og öfgafólkið

04/09/2013

Að fylgjast með samfélagsumræðunni á Íslandi er stundum eins og að horfa á… tja, ég veit eiginlega ekki í hvaða líkingu ég á að grípa hér. Umræðan er stundum svo firrt að það þarf háfleygari heilakvarnir en mínar til þess að lýsa henni almennilega. 

Umræður um hverskonar „öfgar“ eru yfirleitt mjög frjóar svo ég taki dæmi. Við sem eru meðlimir í Vantrú erum til dæmis mikið öfgafólk. Öfgarnar sem við leyfum okkur eru þær að andæfa sókn trúfélaga, og þá sérstaklega ríkiskirkjunnar, inn í opinbert rými (sem er ekki það sama og almannarými, ég þarf að taka þetta fram að gefnu tilefni) auk þess sem við reynum að benda á kukl og hindurvitni sem vaða uppi. Greinarnar sem við birtum á vefriti okkar eru oft harðar en við spörum við okkur gífuryrði nema að við teljum tilefni til þeirra. Ég held, nei ég er eiginlega alveg viss um, að það er ekki innihald greinanna sjálft sem stuðar fólk heldur sú staðreynd að við leyfum okkur að tala á sama hátt um trúarbrögð og aðrir tala um pólitík. Þannig ógnum við fyrirbæri sem hefur völd. Og það er ávísun á leiðindi. 

Í gegnum tíðina hefur okkur verið lýst sem þröngsýnum, fáfróðum og skilningslausum. Við höfum verið sögð hreinlega heimsk og varla þess virði að orðum sé í okkur eytt, svo að ég haldi mig bara við dæmi sem eru innan við tveggja vikna gömul. Auk þess höfum við fengið að heyra að við séum níðingar sem ekkert gott látum af okkur leiða. 

Það sem er magnaðast er að þeir sem lýsa okkur svona líta á okkur sem öfgafólkið en sig sem hófsama. 

Undanfarna daga hefur átt sér stað alveg stórkostleg umræða um annað öfgafólk. Tveim konum blöskraði að fyrrverandi ráðherra og sendiherra sem misnotaði aðstöðu sína sem starfsmaður utanríkisþjónustunnar og skrifaði barnungri frænku sinni klámfengin bréf væri ráðin sem gestalesari við Háskóla Íslands. Þessar konur eru femínistar og þannig samkvæmt skilgreiningu öfgafólk. Og þeir leyfðu sér að skrifa hreinlega grein á internetið, INTERNETIÐ!, þar sem þær veltu fyrir sér réttmæti þess að þessi einstaklingur væri ráðin sem gestafyrirlesari við HÍ. Þær fóru ekki fram á að hann yrði rekinn en kröfðu háskólann svara. 

Ingimar Karl Helgason skrifaði í gær grein þar sem hann tók m.a. saman hluti sem látnir hafa verið falla í umræðunni sem skapaðist í kjölfar greinar kvennanna tveggja:

Orð og setningar sem hafa komið fram í þessari umfjöllun eru t.d. „brennuvargar“, „ofstækislið“, „geðveiki“, „hugleysi“, „brot á mannréttindum“, „öfgafullur minnihluti“, „litlar þrýstisellur“, „vaða uppi með látum“, „kúgun“, „hálar brautir“, „Berufsverbot“, „hótanir kynjafræðinga“, „linnulaus klögumál“, „ef einhver öskrar nógu hátt“, „ofstækisfullur sértrúarsöfnuður“, „rangar og vondar hugmyndir“, „pólitískur rétttrúnaður“, „talíbanar“, „refsing“, „heift“.

Konurnar hafa einnig verið kallaðar grimmir femínistar og þær hafa verið sagðar haldnar kvalalosta, gægjufíkn og yfirdrifnum hefndarþorsta. 

En munið samt að þær eru öfgafólkið í þessu máli. Af því að þær eru að rugga bátnum. Og eins og ég hef fengið að kynnast eftir að ég gekk í Vantrú þá má það ekki. Það eru sjálfkrafa öfgar. Öfugt við það að líkja fólki við nasista og talibana. 

Gerir grein fyrir atkvæði sínu

30/06/2012

Ég fór og kaus áðan. Eins og mér var kennt að maður geri í lýðræðisríki þegar kosningar eru haldnar. Einhverjir gætu reyndar kverúlantast með það orðalag að ég hafi „kosið“ þar sem að kjörseðillinn minn breyttist ekkert frá því að ég fékk hann í hendurnar og þar til ég setti hann í kjörkassann. Ég skilaði auðu.

Ég gat ekki hugsað mér að kjósa Ólaf Ragnar. Það á sér aðallega tvær ástæður. Sú fyrri er sú að mér finnst hann eiginlega fyrst og fremst vera tækifærissinnaður framapotari. Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni þegar hann framkvæmir einhverja gjörninga, eins og t.d. að neita að skrifa undir lög, að það sem mest vægi hafi í ákvörðunum hans sé hvernig hann hagnist á þeim sjálfur.

Mér er alveg sama hvað hann er gamall. Ég bara sé ekki hvernig það kemur málinu við. Og mér er líka alveg sama hvað hann hefur setið lengi. Hann má sitja eins lengi og hann getur sannfært nógu marga kjósendur til þess að leyfa sér það.  Það að hann hafi verið „en helsta klappstýra útrásarinnar“ finnst mér líka veik rök gegn honum. Hann gerði voða lítið annað en að feta braut forvera sinna í þeim málum.

Ég kaus heldur ekki Þóru. Mér finnst hún mjög frambærileg kona og ég treysti henni alveg til góðra verka. Hún náði hins vegar engan vegin að sannfæra mig um að greiða sér atkvæði. Ef hún hefði gefið upp skýrari afstöðu í flestum málum en hún gerði þá hefði ég kannski freistast, mig grunar nefnilega að ég sé sammála henni í mörgum málum. Og það hjálpaði ekki til þegar hún sagði að hún teldi ekki rétt að aðskilja ríki og kirkju vegna þess að kirkjan skipti marga svo miklu máli. Aðskilnaðurinn er eitt af mínum hjartans málum og ég viðurkenni það fúslega að ég læt afstöðu fólks til hans hafa áhrif á það hvort að ég styð það til embætta. Kosningaherferð Þóru fannst mér einnig ekki nógu góð en þar er kannski ekki eingöngu við hana sjálfa að sakast.

Eins og með Ólaf Ragnar þá finnst mér aldur Þóru ekkert atriði. Hún er til dæmis miklu eldri en ég (JÚ VÍST!). Fjölskylda Þóru fannst mér frekar kostur en galli. Það yrði ekkert neikvætt við það að fá unga fjölskyldu á Bessastaði, þvert á móti eiginlega. Svavar virkar líka á mig sem maður sem getur vel hugsað um börnin sín og stutt konuna sína í mikilvægu embætti. Ég held líka að eðli forsetaembættisins geri það að verkum að það sé ekkert erfiðara með tilliti til fjölskyldulífs en t.d. hjá fjölskyldum þar sem foreldrar vinna reglulegan 8-9 tíma vinnudag.

Ég veit voða lítið um Hannes en mér finnst ekki trúverðugt að bjóða sig fram til forseta eftir að hafa búið erlendis í fleiri ár. Herdís náði engan vegin að sannfæra mig um að hún ætti heima á Bessastöðum og Andrea hefur sýnt svo furðulegan skilning á stjórnarskránni að mér dytti ekki í hug að kjósa hana, eins ágæt og hún annars er.

Ég var svolítið heitur fyrir Ara Trausta á tímabili. Mér fannst hann koma sínum skoðunum vel á framfæri og gat tekið undir margt af því sem hann hafði fram að færa.

En það að engin af frambjóðendunum hafi heillað mig skipti þó ekki mestu máli. Mér finnst þetta embætti nefnilega vera tímaskekkja og vil einfaldlega leggja það niður. Á meðan ég er þeirrar skoðunar þá finnst mér ekki rétt að kjósa einhvern einstakling til að gegna því. Ég veit ekki hvort að það megi kalla þetta prinsippafstöðu eða hvort að þetta sé bara minn eðlislægi kverúlantaháttur. Ég efast ekki um að þeir sem þekki mig hallist að því síðara.

En ég get ekki sleppt því að skrifa aðeins um kosningabaráttuna. Ef það sem hefur gengið á seinustu vikur er það sem koma skal ef að persónukjör verður almennt tekið upp í kosningum hér á landi þá er ég hér með orðin andstæðingur þess. Þegar stærsti hluti umræðunnar snýst um að það eigi ekki að kjósa þennan frambjóðanda af því að hann sé nú svona eða hinseginn og minnihlutinn um af hverju maður eigi að kjósa viðkomandi frambjóðanda þá finnst mér fólk verið komið á villigötur.

Auðvitað voru það fyrst og fremst stuðningsmenn frambjóðenda sem töluðu á þessum nótum (með nokkrum undantekningum) og það verður kannski seint hægt að koma í veg fyrir að ofurkappsamir stuðningsmenn fari fram með meiri leiðindum en gott má teljast en þeir sem að stýra framboðum geta þó haft áhrif. Ég tók aldrei eftir því að frambjóðendurnir sjálfir eða fólk í kosningastjórnum þeirra reyndi að fá fólk til að halda aftur af sér í blammeringum á andstæðinga.  Það hefði verið vel séð.

————————

En ég vaknaði semsagt snemma í morgun, klæddi mig í fín föt og burstaði í mér tennurnar. Það voru eftir á að hyggja mistök, ég hefði átt að byrja á því að tannbursta mig og koma þannig í veg fyrir að ég þyrfti að skipta um bol. En þegar því var lokið skundaði ég á kjörstað og inn í kjörklefa, horfði á kjörseðilinn minn í nokkrar sekúndur og skilaði honum svo ósnertum.

Og nú er bara að bíða eftir kosningavökunni. Áfram Auður!

Bugaðir sjómenn og ofurgáfaðir útgerðarmenn

07/06/2012

Til að byrja með langar mig að segja að ég held að sjávarútvegsfrumvörpin tvö sem liggja fyrir séu ekki af hinu góða. Ég held að þau hefði þurft að vinna miklu betur og trúi því ekki að allir þeir fagaðilar, sama hvort um er að ræða aðila úr sjávarútvegsgeiranum, hagfræði eða aðra, sem hafa gefið frumvörpunum neikvæðar umsagnir séu í einhverri herferð annað hvort gegn ríkisstjórninni eða fyrir útgerðarmenn.

En ég nenni eiginlega ekkert að bæta í það orðaflóð sem hefur fallið um þessi frumvörp heldur langar mig frekar að benda á tvo hluti sem fara í taugarnar á mér í umræðunni.

1) Sú hugmynd að sjómenn séu handbendi vinnuveitenda sinna. Það má vel vera að til séu sjómenn sem taka þátt í mótmælaaðgerðum útgerðarmanna með óbragð í munni. Ég held hins vegar að fólk eigi að fara varlega í því að fullyrða að þannig sé almennt farið og að sjómenn séu þar með svo buguð stétt að þeir geti ekki staðið í lappirnar gagnvart yfirmönnum sínum. Ég veit að þeir sjómenn sem ég þekki til eru óánægðir með frumvörpin og að þeir tóku þátt í mótmælunum í dag af fúsum og frjálsum vilja. Óánægjan virðist reyndar líka vera til staðar hjá því fiskvinnslufólki sem ég þekki.

2)  Hugmyndin að útgerðarmenn séu alveg einstaklega góðir í rekstri sinna fyrirtækja. Ég hef séð marga skoðanabræður mína um frumvörpin halda þessu fram. Og svo er það annað hvort sagt beint út eða þá gefið í skyn að útgerðarmenn séu hálfgerðir píslarvottar. Og ég get ekki tekið undir þetta.

Kvótakerfið sem slíkt hefur jú vissulega auðveldað mönnum hagræðingu í rekstri en það hvernig menn hafa svo nýtt sér arðinn sem hagræðingin hefur skapað eiginlega kæfir í fæðingu þá hugmynd að fyrirtækin sjálf séu vel rekin. Flest virðast þau vera veðsett upp í topp á sama tíma og eigendurnir hafa tekið úr þeim arð sem nýttur hefur verið í eitthvað allt annað en sjávarútveginn.

Af hverju er t.d. Ísfélagið í Vestmannaeyjum að velta því fyrir sér að selja eða leigja út nýju Heimaeyna, eitt glæsilegasta skip flotans, á sama tíma og eigandi Ísfélagsins getur séð af fleiri hundruð milljónum á ári í tap á rekstri fjölmiðils? Væri ekki nær að nýta þá fjármuni í að halda þessu glæsilega skipi í þjónustu fyrirtækisins?

Ef við höldum okkur bara við Vestmannaeyjar þá höfum við þar annað dæmi um útgerðarmann sem notaði arðinn úr sínu fyrirtæki til þess að kaupa sér bílaumboð og pítsustaði.

En eins og ég segi, ég held að þessi frumvörp séu ekki af hinu góða. En við skulum ekki láta eins og að það sé allt í himnalagi með hvernig sjávarútvegsfyrirtæki hafi verið rekin á seinustu árum. Ef um væri að ræða fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum þá hefði þeim einfaldlega fyrir löngu verið leyft að fara á hausinn.

Offramboð af framboðum

06/01/2012

Það er gaman að fylgjast með þjóðmálaumræðunni núna. Framboðið af framboðum virðist óþrjótandi. Eftir nokkuð miklar vangaveltur og umræður um ný framboð til alþingiskosninga, sem eru reyndar ekki fyrr en á næsta ári, gerði Ólafur Ragnar Grímsson áhugamönnum um þjóðmálin þann stóra greiða að opna á pælingar um það hverjir muni bjóða sig fram til forseta á þessu ári með því að gefa það eins skýrt til kynna og honum er mögulegt (s.s. ekki mjög skýrt) að hann muni ekki gefa kost á sér í embættið áfram. 

Það sem er svo skemmtilegt við þessar umræður allar er hvað allir þeir sem nefndir eru koma manni mikið á óvart. Ég meina, Guðmundur Steingríms, Frjálslyndi flokkurinn og Lilja Mósedóttir? Hverjum hefði dottið í hug að þar færi á ferðinni fólk sem hefði áhuga á frama í pólitík? Þorvaldur Gylfason, Davíð Oddsson og Jón Baldvin, eru það í alvörunni einstaklingar sem líklegt er að telji sig hafa eitthvað fram að færa þjóðinni til heilla sem forsetar lýðveldisins? Öðruvísi mér áður brá.

Það besta við þessar bollalegginar allar er að það er ennþá svo langt í kosningarnar. Rúmlega hálft ár í forsetakosningar og að öllum líkindum eitt og hálft ár í þingkosningar. Það er ekki nokkur möguleiki á því að maður geti fengið nóg af framboðspælingum. Eftirspurnin eftir þessu fólki er alltof mikil til þess.

Greinin birtist fyrst á Hamragrill.is

Nektarmyndir af íslenskum stjórnmálamanni!

23/12/2011

 

Nei djók!

Gleðileg jól!

Jólahald trúleysingjans

19/12/2011

Ég er farinn að skrifa svolítið á nýtt vefrit sem heitir Hamragrill. Ég var að setja þar inn grein um jólin og hvernig ég held upp á þau. Endilega kíkið!

Sturlaður leikskólakennari skrifar

24/11/2011

Það sem menn gera endurspeglar oftar en ekki raunverulegar skoðanir þeirra á mönnum og málefnum betur en það sem menn segja. Líklega eru fáar stéttir sem þetta á betur við um en stjórnmálamenn. Það er nefnilega svolítið þannig að þeir segja það sem þeir halda að viðmælendur sínir vilji heyra. Þess vegna verður maður að skoða hvað þeir gera.

Besti Flokkurinn og Samfylkingin mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Þeim þykir leikskólar ekkert sérstaklega merkilegir og leikskólakennarar ekki heldur. Annað verður allavega ekki ráðið ef við sleppum fagurgalanum og skoðum bara hvað þessi meirihluti hefur gert.

Ákveðið var að leggjast í sameiningar á leikskólum, annað hvort við aðra leikskóla eða við grunnskóla. Þetta var gert í trássi við vilja og ráðleggingar fagfólks og foreldra. Vissulega mátti skoða það að sameina einhverjar rekstrareiningar en ekkert tillit var tekið til mismunandi hugmyndafræði og stefnu í leikskólastarfi, né skýran vilja foreldra í sumum tilfellum. Við þessar aðgerðir var leikskólastjórum og aðstoðarleikskólastjórum fækkað, en það er líklega eina millistjórnendastétt borgarinnar þar sem konur eru í meirihluta.

Árangur þessara ákvarðana, sem voru teknar án þess að vitað væri hvað myndi sparast á hverri sameiningu, hefur nú komið berlega í ljós.

Í haust varð nefnilega ljóst að ákveðið hafði verið að taka ekki inn börn fædd árið 2010 á leikskóla borgarinnar. Hver tók þá ákvörðun, hvenær og hvernig faglegar forsendur voru metnar (ef þær voru það yfirhöfuð) hefur ekki komið skýrt fram. Hins vegar liggur fyrir að laus pláss eru á leikskólum borgarinnar fyrir börn fædd árið 2010.

Þegar fjölmiðlar fóru loks að sýna þessu málefni áhuga nú í byrjun vetrar fengu leikskólastjórar í borginni bréf frá borgaryfirvöldum sem sumir túlkuðu sem svo að þeim væri ekki leyfilegt að svara fyrirspurnum fjölmiðla, en ein slík hafði borist á alla leikskólaborgarinnar sama dag og borgin sendi bréfið.

Í dag var svo ákveðið að svipta leikskólakennara í borginni svokölluðu neysluhléi, sem þeir fengu borgað sem 10 yfirvinnutíma á mánuði. Á sínum tíma var þessi greiðsla tekin upp vegna manneklu og álags. Á þriðjudag var sagt að í greinargerð með tillögunni kæmi fram að slíkt ástand væri ekki til staðar í dag. Formaður Félags leikskólakennara benti réttilega á að það er einfaldlega bull.

Þá bregður svo við að í greinargerð sem lögð var fram með tillögunni í dag er ekkert á þetta minnst. Hins vegar er aðgerðin réttlætt með því að neysluhlésgreiðslurnar hafi verið hluti af kröfum leikskólakennara við gerð seinasta kjarasamnings. Staðreyndin er hins vegar sú að þessi krafa gekk ekki eftir heldur byggjast launahækkanirnar sem leikskólakennarar náðu í gegn á allt öðrum forsendum, eins og þeir sem fjalla um þessi mál ættu auðvitað að vita.

Halli, formaður félags okkar leikskólakennara, segir í yfirlýsingu í dag að leikskólakennarar í Reykjavík séu sturlaðir vegna þessa. Ég held að það sé óhætt að segja að leikskólakennarar almennt á Íslandi séu það líka.

Ekki bara vegna þessa máls heldur vegnar þess virðingarleysis fyrir leikskólum sem sífelldar árásir Samfylkingarinnar og Besta Flokksins í Reykjavík sýna. Þegar gerðir, en ekki orð, meirihlutans í leikskólamálum eru skoðaðar er niðurstaðan ekki góð. Ekki fyrir vini leikskólans í það minnsta.

 

Úrsögn úr Sjálfstæðisflokknum

22/11/2011

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið breiðfylking hægri manna á Íslandi. Innan hans hafa rúmast misjafnar skoðanir á fólks á hægri væng stjórnmálanna. Styrkur flokksins hefur verið sá að stefna hans hefur verið mörkuð á þann hátt að jafnvel þó að ekki allir hægri menn hafi getað tekið undir allt í henni hefur ekki verið gengið fram á hátt sem gerir ákveðnum hópum það nánast útilokað að starfa með flokknum. Á undanförnum misserum hefur því miður orðið misbrestur á þessu.

Einn af þeim hópum sem alltaf hefur verið áberandi í starfi Sjálfstæðisflokksins eru þeir sem kalla má kristilega íhaldsmenn. Þeir hafa jafnan barist fyrir því að flokkurinn verji kristni og Þjóðkirkjuna. Það hefur gengið misvel. Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki markað sér opinbera stefnu á landsfundi um aðskilnað ríkis og kirkju sem má e.t.v. telja eðlilegt í ljósi þess að skiptar skoðanir eru um það málefni innan flokksins og ólíklegt að hægt væri að ná sátt um afstöðu í aðra hvora áttina. Flokkurinn endurspeglar þannig ekki afstöðu þjóðarinnar í málinu þar sem meirihluti hefur verið fyrir aðskilnaði í könnunum Gallup í hartnær tvo áratugi.

Undanfarið hefur mörgum fundist Sjálfstæðisflokkurinn hafa tekið skarpa beygju í átt til kristilegrar íhaldssemi. Það sást vel í umræðum um nýlegar reglur Reykjarvíkurborgar um samstarf lífsskoðunar- og trúfélaga við menntastofnanir. Þar beittu fulltrúar flokksins í borgarstjórn og nefndum borgarinnar sér gegn reglunum og endurómuðu í þeirri baráttu spuna ættaðan frá Biskupsstofu sem ekki var alltaf vandaður eða réttur.

Nú hefur svo 40. landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkt að standa vörð um tengsl Þjóðkirkjunnar við ríkið og í raun er gengið lengra þar sem uppihald kirkjunnar og annara trúfélaga með framlögum úr ríkissjóði, sem ranglega eru kölluð félagsgjöld, eiga nú að vera tryggð betur en verið hefur gert skv. fundinum.

Þessar samþykktir má finna í ályktun landsfundar um innanríkismál. Í stjórnmálaályktun landsfundar stendur svo eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi.

„Kristin gildi“ er líklega einhver þvældasta klisja trúmálaumræðunnar á Íslandi. Þetta er merkingarlaus frasi því að hann er bæði notaður til þess að lýsa náungakærleika og svo til þess að festa í sessi fordóma og óþol, t.d. gagnvart samkynhneigðum. Flokkurinn á svo að hlúa sérstaklega að „kirkju“, sem augljóslega vísar til ríkisstofnunarinnar Þjóðkirkju.

Þeim sem aðhyllast minni ríkisafskipti af málefnum einstaklinga, hvað þá minni fjáraustur ríkisins til fyrirbæra sem hafa alla burði til að reka sig sjálf og engin sjáanleg þörf er fyrir að rekin séu með skattpeningum almennings, hlýtur að blöskra.

Framganga formanns flokksins, Bjarna Benediktssonar, undanfarna mánuði hefur einnig vakið athygli. Í ræðustóli alþingis við seinustu eldhúsdagsumræður vakti hann athygli á því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði íhugað að segja sig úr Þjóðkirkjunni og fann því allt til foráttu. Af hverju gróf Bjarni upp rúmlega ársgömul ummæli Jóhönnu á þeim vettvangi? Og af hverju telur Bjarni að trúfélagaskráning einstaklinga sé yfirhöfuð eitthvað sem honum kemur við? Það ríkir trúfrelsi í landinu, það nær líka til ráðherra í ríkisstjórn.

Trúfrelsi varð Bjarna svo tilefni til furðulegra ummæla í setningarræðu sinni á nýliðnum landsfundi. Þar sagði hann:

Trúfrelsið er misskilið. Sumir virðast halda að það snúist um að enginn megi hafa neina trú – og alveg sérstaklega ekki kristna.

Hér bergmálar Bjarni fórnarlambskjökur forvígismanna ríkiskirkjunnar, einnar elstu og sterkustu valdastofnunar ríkisins. Staðreyndin er hins vegar sú að engin hefur lýst skoðunum sem gefa tilefni til ummæla á þessum nótum.

Þegar allt er tekið saman er augljóst að flokkurinn er að færa sig enn frekar inn á lendur kristilegrar íhaldssemi. Þær skoðanir sem settar hafa verið fram, bæði af formanni og kjörnum fulltrúum, rýma illa við hugmyndir um að ríkið eigi að skipta sér sem minnst af persónulegum málefnum einstaklinga. Þær passa líka illa við hugmyndir um að skattfé almennings fari ekki í uppihald á stofnunum sem vel geta rekið sig sjálfar.

Ég get ekki unnið stefnu hylli sem innifelur það að ein lífsskoðun sé réttari og að þeir sem hana aðhyllast skuli hafa meiri rétt og meira vægi en aðrir. Ég get ekki stutt stefnu sem felur í sér að ríkið úthluti trúfélögum (athugið að hvergi í ályktunum landsfundar er minnst á lífsskoðunarfélög í þessu samhengi) fjárframlögum úr ríkissjóði og styðji auk þess sérstaklega eitt trúfélag umfram önnur.

Þess vegna hef ég sagt mig úr Sjálfstæðisflokknum.

Það kemur þó fleira til en varðstaða flokksins um ríksivædd trúarbrögð. Mér hefur ekki líkað við vinnubrögð núverandi forystu flokksins, mér líkar ekki við dálæti fjölmargra flokksfélaga á ákveðnum fyrrverandi formanni sem einsamall jarðaði ágæta skýrslu endurreisnarnefndar á landsfundi 2009 með hótfyndni og leiðindum, ég er kominn með ógeð á ungliðapólitíkinni í flokknum og síðast en ekki síst hef ég fengið talsvert óþol á pólitík almennt.

Kannski finnst einhverjum flokksmeðlimum þetta ekki réttlátar ástæður. En á meðan ég er á þessum stað get ég ekki verið í Sjálfstæðisflokknum.  Í gegnum flokksstarfið hef ég eignast marga góða vini og félaga og á árunum sem ég var virkastur var yfirleitt ofboðslega gaman að starfa í flokknum. Þessum vinum og félögum óska ég alls góðs. Ég verð auk þess áfram frjálslyndur í stjórnmálaskoðunum og flokka sjálfan mig hægra megin við miðju.

En nú skilja leiðir.

Að pota í rassgöt á landi eða á sjó

17/11/2011

Dómurinn yfir kynferðisglæpamönnunum sem misþyrmdu 13 ára barni um borð í skipi hefur vakið talsverða athygli og hneykslun. Skiljanlega. Það sem átti sér stað um borð í skipinu var hræðilegt. Maður getur ekki annað en fundið til með barninu sem var fast um borð í skipi með kvölurum sínum í fleiri daga. Það eru aðstæður sem maður óskar engum.

Eitt af því sem mennirnir gerðu var að pota í endaþarm drengsins með fingrum og öðrum hlutum. Í allavega eitt skiptið fór fingur inn í endaþarm drengsins skv. atvikalýsingu.

Nú vill svo til að fyrr á árinu féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur þar sem maður var dæmdur fyrir að stinga tveimur fingrum í endaþarm konu þar sem hún var að pissa á Austurvelli.

Skipverjarnir fengu skilorðsbundna dóma í 45 daga (tveir þeirra), 60 daga og þrjá mánuði. Maðurinn á Austurvelli fékk 18 mánaða óskilorðsbundna refsingu.

Vandamálið er það að skipverjarnir voru ákærðir fyrir að beita kynferðislegri áreitni með lostugu athæfi sem særði blygðunarkennd en sá á Austurvelli var ákærður fyrir nauðgun. Samt er erfitt að sjá að brot skipverjana hafi verið annars eðlis, hvað þá vægari. Þeir voru auk þess að brjóta gegn barni. Saksóknarinn í því máli skuldar útskýringar á því hvað lá að baki ákvörðun um hvað ákært skyldi fyrir.

————————

Yfirlýsing umboðsmanns barna frá því í gær þar sem hann fagnar niðurstöðu dómsins er annað atriði sem kallar á útskýringar. Satt best að segja finnst mér að Margrét María þurfi hreinlega að huga að stöðu sinni eftir þessa yfirlýsingu.

Eineltisvæl þeirra sem valdið hafa

10/11/2011

Einelti er alvarlegt vandamál. Það tekur mikið á fólk að lenda í einelti og fólk getur verið lengi að vinna sig úr því. Það kemur fyrir að þeir sem lenda í einelti nái sér aldrei eftir þá reynslu.

Umræðan um einelti á Íslandi er því miður meingölluð. Á öðrum pólnum höfum við þá sem að vilja leggja mesta áherslu á þau slæmu áhrif sem einelti hefur. Umfjöllun DV um einelti síðustu vikur og mánuði hefur svolítið litast af þessu. Flökkustatus á Facebook þar sem fórnarlömbum eineltis er líkt við krumpaðan og „varanlega skemmdan“  pappír er af þessum rótum. Ég efast um að það hjálpi þeim sem annað hvort glíma við einelti eða afleiðingar þess að heyra og fá þann dóm að þeir séu varanlega skemmdir.

Boðskapurinn og hugsunin sem liggur þarna á bakvið er þó í grunninn góður, þó að hann smitist af tilfinningaklámsblæti. En svo er það hinn póllinn í gölluðu umræðunni. Það eru þeir sem gera lítið úr einelti.

Landsstjórn Landssambands Framsóknarkvenna sakar Egil Helgason um einelti af því að hann birti myndband þar sem þingkonu flokksins, Vigdísi Hauksdóttur, verður fótaskortur á tungunni. Það er svo ekki langt síðan Álfheiður Ingadóttir notaði þetta orð yfir það þegar Björn Bjarnason ásakaði hana og Atla Gíslason um að veitast að lögreglunni.

Svona væl gengisfellir orðið einelti alveg rosalega. Það sem þarna var á ferðinni er ekkert líkt því sem gerist þegar um raunverulegt einelti er að ræða.

Það virðist vera orðið viðkvæðið að allir sem telja á sér brotið séu fórnarlömb eineltis. Sjá t.d. þetta brot úr aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag, höfundur er Guðbjörg Snót Jónsdóttir guðfræðingur:

Þær hreyfingar sem kalla sig Vantrú og Siðmennt hafa lagt þjóðkirkjuna í einelti í langan tíma og varla linnt látum í þeim efnum og kórónuðu það með ályktun fulltrúa þeirra og Margrétar Sverrisdóttur um samskipti kirkjunnar og skólanna nýlega.

Þjóðkirkjan á Íslandi er lögð í einelti af tveimur félögum sem eru fámennari til samans en flestar sóknir landsins. Finnst einhverjum þetta vera boðlegur málflutningur? Er virkilega ekki hægt að sýna þolendum eineltis þá virðingu að nota einhver önnur orð en einelti þegar vælt er undan því að maður sé sviptur forréttindum?

Seinna í greininni er þetta að finna (þarna er vísað til Margrétar Sverrisdóttur):

Henni veitti greinilega ekki af að læra um einelti og hvað það er, eins og hún hefur hugsað og talað í þessum efnum.

Einhverjum veitti ekki af því að fræðast um einelti. En ég held að við Guðbjörg séum ekki sammála um hver það er.